140. löggjafarþing — 9. fundur,  17. okt. 2011.

námsárangur drengja í skólum.

56. mál
[15:50]
Horfa

Sigurður Ingi Jóhannsson (F):

Frú forseti. Ég þakka þessa þörfu umræðu um þetta mikilvæga mál. Ég hef á liðnum árum tekið eftir því að á starfsvettvangi sveitarstjórna þar sem skólaskrifstofur hafa skilað af sér yfirliti yfir námsárangur og líðan í skóla og vísað til annarra úrræða vegna agavandamála eða einhvers þess sem hefur upp komið eru strákar í miklum meiri hluta, allt að 80%. Þar er gríðarlega mikil kynjaskipting. Ég hef oft velt því fyrir mér og borið til dæmis saman við skólagöngu minnar eigin kynslóðar og þar varð ég ekki var við þennan gríðarlega mun á milli kynja, hvorki í læsi né líðan. Ég hef velt því fyrir mér hvort það geti verið eitthvað að þeirri skólastefnu sem við höfum fylgt á liðnum áratugum, það sé ekki endilega eitthvað að (Forseti hringir.) strákunum heldur því hvernig við leitum leiða til að kenna í dag. Kannski þarf að skoða það og ég hvet hæstv. menntamálaráðherra til þess.