140. löggjafarþing — 9. fundur,  17. okt. 2011.

námsárangur drengja í skólum.

56. mál
[15:51]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S):

Frú forseti. Mjög margir grunnskólakennarar vinna frábært starf, en það er eitthvað að kerfinu þegar tíunda hver stúlka og 23% drengja geta ekki lesið heila bók 15 ára. Mér finnst að við eigum að setja okkur það mark að allir séu orðnir læsir níu ára og geti þá lesið að fullu. Þá kröfu eigum við að gera, kannski með einstökum undantekningum. Velflestir krakkar eiga að kunna að lesa níu ára. Þetta leiðir nefnilega til brottfalls í framhaldsskólum sem er mjög mikið mein á Íslandi og þetta leiðir til niðurbrots á sjálfsvirðingu og sjálfstrausti þessara barna. Þetta er mjög mikið mein og ég skora á hæstv. ráðherra að taka mjög alvarlega á málinu og leysa það.