140. löggjafarþing — 9. fundur,  17. okt. 2011.

námsárangur drengja í skólum.

56. mál
[15:54]
Horfa

Ólína Þorvarðardóttir (Sf):

Frú forseti. Ég fagna þeirri umræðu sem hv. þm. Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir vekur hér upp. Lestur og lesskilningur er auðvitað grundvöllur allrar frekari skólagöngu hjá nemendum, þar með grundvöllur atvinnuþátttöku þeirra og þar með síðar farsældar í lífi og starfi. Þess vegna kveikja niðurstöður þeirrar skýrslu sem hér er gerð að umtalsefni ákveðin viðvörunarljós. Það kann að vera að þarna sé undirliggjandi líka ákveðin lesblinda sem er ekki mjög viðurkennt vandamál í skólakerfinu, en það er umhugsunarefni í ljósi þess hve margt hefur breyst í kennslustofunni á síðustu áratugum hvaða áhrif það hefur meðal annars á drengi.

Jafnréttisstofa hefur vakið athygli á því að sú staðreynd að konur eru í meiri hluta þeirra sem kenna drengjum getur haft áhrif á námsárangur þeirra, m.a. vegna þess að þá skortir karlkyns fyrirmyndir í námi sem getur (Forseti hringir.) haft áhrif á áhuga þeirra og þar með getu í framhaldinu til að tileinka sér læsi og aðra grunnfærniþætti. En þetta er vissulega áhyggjuefni (Forseti hringir.) og full ástæða til að taka það til umfjöllunar á þessum vettvangi.