140. löggjafarþing — 9. fundur,  17. okt. 2011.

námsárangur drengja í skólum.

56. mál
[15:58]
Horfa

umhverfisráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg):

Frú forseti. Þetta er mjög víðtæk og mikilvæg umræða og mjög margir punktar í henni sem væri hægt að staldra við. Mig langar til að nefna örstutt nokkra. Í fyrsta lagi verðum við að gæta okkar á þeim staðalímyndum og mýtum sem hafa verið uppi í samfélaginu um skort á karlkyns kennurum sem væri þá upphaf og endir slaks námsárangurs drengja. Ég tek undir mikilvægi þess að gera kröfur. Ég tek undir mikilvægi þess að gera enn þá betur að því er varðar ytra mat á skólastarfi. Það er eitt af því sem við þurfum að gera betur á öllum skólastigum, að meta skólastarf.

Ég nefni mikilvægi læsis í víðum skilningi sem er einn af grunnþáttum nýrrar aðalnámskrár þar sem rætt er um bæði grunnfærniþáttinn en ekki síður mikilvægi þess að vera læs á samfélagið og umhverfi sitt. Loks tek ég undir orð hv. þm. Jónínu Rósar Guðmundsdóttur um skólabókasafnið. Það var styrkt með síðustu breytingu á grunnskólalögum, það er að mörgu leyti hjarta lestursins í grunnskólanum og stemningin fyrir lestri sem hér var aðeins nefnd og með tilvísun í ágæta blaðagrein í dag er líka viðfangsefni skólans, að kenna og miðla til barna, þ.e. þessi hljóðláta og mikilvæga samvera manneskjunnar með bókinni.