140. löggjafarþing — 9. fundur,  17. okt. 2011.

staðfesting aðalskipulags.

45. mál
[16:10]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Einar K. Guðfinnsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka þessa umræðu og svör hæstv. umhverfisráðherra. Fyrst aðeins út af samráðinu, það er alveg ljóst að af hálfu sveitarfélaganna er litið þannig á að þessu samráðsferli sé lokið. Það hafa átt sér stað viðræður við Vegagerðina í gegnum tíðina um þessi mál. Efnislegur ágreiningur ríkir um legu vegarins.

Ég er nokkuð hugsi yfir því sem hæstv. umhverfisráðherra sagði og vísaði til vegalaga og umferðaröryggismála. Það vekur upp ýmsar spurningar. Í fyrsta lagi: Hver er þá hinn rétti úrskurðaraðili um það hvenær umferðaröryggi er tryggt? Er það álit Vegagerðarinnar eða er það einhver óháður aðili? Er það til dæmis umhverfisráðuneytið sem getur með einhverjum hætti lagt mat á það hvenær búið er að uppfylla skilyrðin um umferðaröryggi?

Ég get ekki skilið orð hæstv. umhverfisráðherra öðruvísi en svo að ef ekki er búið að sýna fram á það að óbreytt lega vegarins leiði til minna umferðaröryggis, ef menn telja sem sagt að óbreytt lega vegarins leiði til minna umferðaröryggis en sú lega sem Vegagerðin hefur lagt til, sé ekki hægt að staðfesta óbreytta skipulagstillögu sveitarfélaganna. Ef það er niðurstaðan í umhverfisráðuneytinu eða af hálfu Vegagerðarinnar að óbreytt lega vegarins stuðli að minna umferðaröryggi en breytt lega vegarins, er þá umhverfisráðuneytinu óheimilt að staðfesta skipulagstillögu sveitarfélaga? Það væri fróðlegt að fá svar við þessu.

Það sem hæstv. umhverfisráðherra er að bjóða hér upp á er að staðfesta skipulagstillöguna með einhvers konar fyrirvörum. Það leysir út af fyrir sig ekki þennan stóra vanda. Auðvitað verður annaðhvort að staðfesta skipulagstillöguna í heild sinni eða alls ekki. Svona mikilvægur þáttur eins og sjálf aðalumferðaræðin í gegnum sveitarfélagið verður að liggja fyrir því að það verður mjög ráðandi um framtíðaruppbyggingu (Forseti hringir.) þeirra sveitarfélaga sem hér eiga í hlut.