140. löggjafarþing — 9. fundur,  17. okt. 2011.

staðfesting aðalskipulags.

45. mál
[16:12]
Horfa

umhverfisráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg):

Já, þetta er nefnilega ekkert einfalt mál, virðulegur forseti. Ég hef nú ekki mikinn tíma hér og bið menn að halda sig við efni máls vegna orða hv. þm. Sigurðar Inga Jóhannssonar sem missti sig í dylgjur hér eitt augnablik, en ég vona að ég endurheimti hann úr þeim ógöngum.

Varðandi lagastoðina og það sem kemur fram í ræðu hv. þingmanns og fyrirspyrjanda er gert ráð fyrir að tillögur Vegagerðarinnar um umferðaröryggi samkvæmt lögunum séu studdar viðurkenndu mati á umferðaröryggi mismunandi valkosta, m.a. stuðst við sérstaka umferðaröryggisrýni sérfræðinga á því sviði. Þetta segir í lögunum. Hins vegar er í hvorki í lagaákvæðinu né í greinargerð með frumvarpinu, þá er ég að tala um vegalög frá 2007 og sú sem hér stendur kom ekki að þeirri lagasmíð, kveðið á um það hvernig eigi að leysa úr ágreiningi milli sveitarfélags og Vegagerðarinnar ef upp kemur ágreiningur um mat á umferðaröryggi. Þetta er í raun það lagaumhverfi sem við búum við hvað þetta varðar og er nokkuð sem löggjafinn þyrfti að taka til skoðunar, ekki síst þegar varðar stöðu sveitarfélaganna og skipulagsvald þeirra frammi fyrir þessum þætti aðalskipulagsákvarðana, þ.e. þegar ágreiningur er við Vegagerðina. Þessi breyting á sér stað í meðförum þingsins á sínum tíma, 2007, og er vel þess virði að skoða. Ég mæli með því að hv. þingmaður geri það.

Hins vegar er því til að svara að ekkert annað er í farvatninu hjá þeirri sem hér stendur en að staðfesta aðalskipulagsuppdrætti þegar þeir berast um leið og það gerist, (Forseti hringir.) bæði fyrir Skagafjörð og hin sveitarfélögin, Húnavatnshrepp og Blönduóssbæ sem hér hafa verið nefnd.