140. löggjafarþing — 11. fundur,  18. okt. 2011.

ákvörðun Alcoa um álver á Bakka -- innkaup embættis ríkislögreglustjóra -- bankamál.

[13:32]
Horfa

Magnús Orri Schram (Sf):

Virðulegi forseti. Mér þykir heldur langsótt að gagnrýna stjórnvöld og þessa ríkisstjórn fyrir þá ákvörðun sem Alcoa gerði opinbera í gær hvað snertir orkuuppbyggingu á Bakka. Alcoa segir:

1. Ekki er nægilegt magn orku til staðar.

2. Við erum ekki tilbúnir að greiða samkeppnishæft verð fyrir þá orku.

Ég tel að það hafi verið farsæl ákvörðun á sínum tíma að segja upp einokunarsamningi Alcoa á orkunni fyrir norðan. Málið var í læstri stöðu og það þurfti að opna það til að hleypa öðrum að, enda markmið allra sem að málinu koma að nýta sem fyrst þá orku sem er til staðar í Þingeyjarsýslum til orkuuppbyggingar.

Landsvirkjun hefur nú þegar farið af stað, búið er að setja 3 milljarða í verkefnið til undirbúnings og búið að bjóða út hönnun virkjana. Allt er farið af stað á grundvelli í fyrsta lagi samkeppnishæfrar verðlagningar og í öðru lagi þess að hér sé orkan nýtt á grundvelli sjálfbærrar nýtingar.

Jarðhitaverkefni eru viðkvæm og nýtingin má ekki vera of ágeng. Markmið stjórnvalda, þessarar ríkisstjórnar, hefur ætíð verið að koma af stað orkuuppbyggingu fyrir norðan en til að hægt væri að vinna málið áfram þurfti að losa einokun Alcoa af orkunni enda fyrirtækið ekki tilbúið að greiða samkeppnishæft verð og sjálfbær nýting var í uppnámi ef Alcoa mundi nýta orkuna. Landsvirkjun á að fá að taka ákvörðun á viðskiptalegum forsendum, það er eftirspurn eftir orkunni, allt er farið í gang og þegar eru fimm aðilar í samningaviðræðum við fyrirtækið um kaup á orkunni. Landsvirkjun mun hefja framkvæmdir árið 2012. Verðið fyrir rafmagnið verður skikkanlegt og orkan verður nýtt sjálfbært. Það eru skilaboðin norður á land.