140. löggjafarþing — 11. fundur,  18. okt. 2011.

ákvörðun Alcoa um álver á Bakka -- innkaup embættis ríkislögreglustjóra -- bankamál.

[13:34]
Horfa

Björn Valur Gíslason (Vg):

Forseti. Í gær tilkynnti forstjóri Alcoa á Íslandi þá ákvörðun fyrirtækisins að hætta við áform um að reisa álver á Bakka við Húsavík. Ákvörðun fyrirtækisins var fyrirséð og algjörlega óhjákvæmileg eins og forstjórinn benti á í tilkynningu fyrirtækisins. Í þeirri tilkynningu segir meðal annars, með leyfi forseta:

„Alcoa á Íslandi tilkynnti hagsmunaaðilum á Norðurlandi í dag að félagið væri hætt áformum um byggingu álvers á Bakka enda ljóst að ekki muni bjóðast nægileg orka á samkeppnishæfu verði til álversins.“

Einnig segir í tilkynningunni að ekki verði ráðist í framkvæmdir af hálfu fyrirtækisins nema tryggt verði að næg orka fáist til álversins á viðunandi verði til framtíðar. Ákvörðun sína byggir Alcoa annars vegar á því að ekki sé til nægileg orka á svæðinu til að réttlætanlegt sé að ráðast í framkvæmdir af þeirri stærðargráðu sem fyrirtækið hafði hugsað sér að fara í og hins vegar á því að fyrirtækið sé ekki samkeppnishæft um verð á þeirri orku sem til er og kann að finnast á svæðinu.

Í sjálfu sér eru þetta ekki nýjar fréttir með öllu. Það hefur legið lengi fyrir að Landsvirkjun hefur ekki haft þá orku í hendi til að selja sem Alcoa hefur talið sig þurfa að fá. Það er því engin söluvara á borðinu eins og forstjóri Alcoa benti réttilega á.

Hitt er í sjálfu sér áhugavert að Alcoa telur sig ekki vera samkeppnishæft um verð á orkunni sem þegar er til og kann að finnast á orkusvæðum í Þingeyjarsýslum. Það segir okkur að einhverjir aðrir eru tilbúnir að koma að nýtingu orkunnar á svæðinu og greiða fyrir hana viðunandi verð. Það eru góðar fréttir og gefa fyrirheit um atvinnuuppbyggingu á Norðurlandi byggða á raunhæfum kostum í stað þeirra skýjaborga sem reistar hafa verið á undanförnum árum. (Gripið fram í: Eitthvað annað.)