140. löggjafarþing — 11. fundur,  18. okt. 2011.

ákvörðun Alcoa um álver á Bakka -- innkaup embættis ríkislögreglustjóra -- bankamál.

[13:38]
Horfa

Siv Friðleifsdóttir (F):

Virðulegur forseti. Um daginn var mjög athyglisvert sjónvarpsviðtal við ríkisendurskoðanda þar sem hann sagðist telja að embætti ríkislögreglustjóra hefði brotið lög varðandi innkaup á búnaði. Þetta er auðvitað mjög alvarleg ásökun eins og gefur að skilja sem kemur frá stofnun sem við höfum mjög mikla tilhneigingu til að treysta. Við treystum bæði ríkisendurskoðanda og líka lögreglunni almennt.

Þessar fréttir fóru víða og voru meðal annars fyrstu fréttir á ljósvakamiðlum. Í dag er hægt að nálgast þær upplýsingar á vef innanríkisráðherra, þar er dregin upp mjög villandi mynd af þessu máli. Ég ætla að vitna beint í hæstv. innanríkisráðherra, Ögmund Jónasson, sem segir í fréttatilkynningu:

„Ég hef sannfærst um að embætti ríkislögreglustjóra hafi farið að lögum í innkaupum sínum. Sú mynd sem dregin hefur verið upp í fjölmiðlum af embættinu er ómakleg og röng. Hins vegar eru þessi mál almennt ekki í nógu góðum farvegi og því eru tilteknir þættir þeirra teknir til sérstakrar skoðunar.“

Þetta er mat hæstv. ráðherra og nú er spurning: Hvað gera menn í þessari stöðu? Hvernig er hægt að leiðrétta svona villandi málflutning? Munu fjölmiðlar birta leiðréttingar? Mun ríkisendurskoðandi biðjast afsökunar á þeim áburði sem hann kom með? Eða hvað gerum við? Það er erfitt að leiðrétta svona eftir á. Ég vil af þessu tilefni koma með ábendingu til nýrrar stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar Alþingis. Þar er formaður hv. þm. Valgerður Bjarnadóttir og ég tel þetta mál þess eðlis og það alvarlegt að nefndinni beri að skoða samskiptareglur milli embætta (Forseti hringir.) svo svona endurtaki sig helst ekki.