140. löggjafarþing — 11. fundur,  18. okt. 2011.

ákvörðun Alcoa um álver á Bakka -- innkaup embættis ríkislögreglustjóra -- bankamál.

[13:52]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf):

Virðulegur forseti. Ég vil byrja á því að taka undir með hv. þm. Sigmundi Erni Rúnarssyni sem mælir af skynsamlegu viti um fréttir gærdagsins. Eins og fram kom hjá hv. þm. Guðlaugi Þór Þórðarsyni voru fulltrúar viðskiptabankanna á fundi hjá okkur í efnahags- og viðskiptanefnd í gær og af því eru nokkrar fregnir í fjölmiðlum dagsins, m.a. um svigrúm bankanna. Það er út af fyrir sig hægt að staðfesta það sem þar kemur fram að sumir bankanna telja sig hafa nýtt það svigrúm sem þeir höfðu varðandi fasteignaveðlán heimilanna í þær aðgerðir sem þeir hafa þegar farið í og aðrir eru við það að ljúka þeim.

Það er gott að fá þá afstöðu fjármálafyrirtækjanna fram en það er um leið mikilvægt, vegna þess að því miður er mikið vantraust í samfélagi okkar á öllum stofnunum þess, að við höfum forgöngu um að óháður aðili fari yfir þær upplýsingar og staðfesti að þær séu réttar, eins og við gerum ráð fyrir. Það er líka mikilvægt að fólk misskilji ekki skilaboðin. Þótt bankarnir hafi nýtt það svigrúm sem þeir höfðu til afskrifta þýðir auðvitað ekki að þeir muni hætta að vinna úr fjármálum fólks eða afskrifa tapaðar kröfur. Svigrúmið, sem kallað hefur verið, er ekki nein endanleg stærð. Auðvitað verður verkefnum þar haldið áfram, m.a. aðstoð við fólk sem er í samningum við fjármálastofnanir sínar og reynir að vinna með skynsamlegum hætti úr stöðu sinni. Það er ekki búið að loka bönkunum. Þó að þeir telji að svigrúmið sé nýtt er mikilvægt að fólk sem á í miklum fjárhagserfiðleikum, býr við svartsýni og á erfitt með manna sig upp í að taka á fjármálum sínum mislesi ekki skilaboðin. Auðvitað á fólk að halda áfram að fara með sín mál í bankana og vinna úr þeim (Forseti hringir.) í góðu samstarfi við þá.