140. löggjafarþing — 11. fundur,  18. okt. 2011.

ákvörðun Alcoa um álver á Bakka -- innkaup embættis ríkislögreglustjóra -- bankamál.

[13:59]
Horfa

Bjarni Benediktsson (S):

Frú forseti. Það harmar enginn stjórnarliði, ekki einn, niðurstöðu Alcoa. Samt er hæstv. utanríkisráðherra í salnum sem á sínum tíma skrifaði undir framlengingu á viljayfirlýsingu um álver á Bakka. Hér er líka hæstv. núverandi iðnaðarráðherra sem hefur tiltölulega nýlega sagt að norðanmenn eigi að undirbúa sig undir stórkostlega uppbyggingu, það verkefni hafi forgang, en það sé sérstaklega erfitt að sjá að hætt sé við álver á Bakka.

Það er líka alveg ótrúlegt að sjá hv. þm. Magnús Orra Schram koma upp og tala um að þetta sé mikið fagnaðarefni vegna þess að nú sé tryggt að orkan verði nýtt með sjálfbærum hætti.

Ég segi bara: Tjöldin eru fallin. Það var aldrei neitt meint með mörgum orðum um stuðning við þetta verkefni. Það var ekki neitt að marka ríkisstjórnina þegar hún talaði um að álver á Bakka væri inni í myndinni því að við fyrsta tækifæri, um leið og verkefnið hefur verið slegið af, þá koma stjórnarliðarnir, bæði úr Samfylkingu og Vinstri grænum, og fagna niðurstöðunni. Það er með miklum ólíkindum.

Ég ætla að vera sá fyrsti hér, eða a.m.k. einn af þeim fyrstu, til að harma þessa niðurstöðu. Ég tel að hún sé fólkinu fyrir norðan alveg gríðarleg vonbrigði og staðreynd málsins er sú að við höfum ekkert annað í hendi. Þegar talað er um samkeppnishæft verð verða menn að benda á valkostinn. Það er búið að snúa öllu á hvolf þegar talað er um að Alcoa sé ekki tilbúið til að borga samkeppnishæft verð þegar staðreyndin er sú að fyrirtækinu bauðst ekki samkeppnishæft verð.

Þegar hv. þm. Mörður Árnason talar um að stjórnvöld eigi ekki að draga norðanmenn á asnaeyrunum er hann væntanlega að tala um ríkisstjórnina (Forseti hringir.) sem er undir forustu Jóhönnu Sigurðardóttur. Hún hefur dregið norðanmenn á asnaeyrunum í þessu máli.