140. löggjafarþing — 11. fundur,  18. okt. 2011.

ákvörðun Alcoa um álver á Bakka -- innkaup embættis ríkislögreglustjóra -- bankamál.

[14:03]
Horfa

Björgvin G. Sigurðsson (Sf):

Virðulegi forseti. Ég vil vekja athygli á því í þeim umræðum sem hér eru og víða annars staðar um það vandasama vinnsluferli sem jarðhitanýting er, að í gærkvöldi sat ég ásamt fleiri þingmönnum og á þriðja hundrað íbúum Hveragerðis og ýmsum af Reykjavíkursvæðinu fund með Orkuveitu Reykjavíkur í Hveragerði um þá skjálftavirkni sem verið hefur undanfarið vegna niðurdælingar fyrirtækis því tengdu.

Nú ber að geta þess að niðurdælingin sem mikið er rætt um núna hafi framkallað manngerða skjálfta upp á allt að 3,8 á Richter og valdið mikilli hræðslu og reiði á þessu svæði. Kom það skýrt fram á fundinum í gær þar sem var vægast sagt mjög þungt í fólki, það var hrætt og það var reitt, enda vel mætt þegar hátt í 300 manns úr 2.000 manna bæ mæta á slíkan fund. Hvolfast þar auðvitað yfir minningar frá 29. maí 2008 þegar skjálfti upp á 6,4 á Richter reið yfir staðinn og olli gríðarlegu tjóni.

Forstjóri Orkuveitunnar baðst afsökunar á upplýsingaleysi fyrirtækisins um málið og sagði að ekki hefði verið gert ráð fyrir svo snörpum skjálftum sem af þessu urðu. En það er ástæða til að vekja athygli á þessu. Jarðhitanýtingin er viðkvæmt og vandasamt ferli, eins og fram kom í umræðunum í dag, langt umfram vatnsaflsnýtinguna. Það er sjálfsagt að skora á Orkuveitu Reykjavíkur, Hitaveitu Suðurnesja og önnur fyrirtæki sem vinna jarðvarma að endurskoða fyrri áform um niðurdælingu og gæta þar ýtrustu varfærni og leita allra leiða til að upplýsa íbúana á svæðinu, sem tekur yfir meira og minna allt suðvesturhornið, um möguleg áhrif á niðurdælingunni og þá snörpu skjálfta, allt að 4 á Richter, sem orðið geta vegna þessara framkvæmda. Það er þó um leið nauðsynlegt af því að virkjanaleyfið hangir á því (Forseti hringir.) að fyrirtækið dæli vatni aftur niður í geymana til að endurnýja þá og vernda grunnvatnið. En hér hefur ýmislegt farið úrskeiðis og er ástæða til að hvetja fyrirtækið (Forseti hringir.) til að fara mjög varlega.