140. löggjafarþing — 11. fundur,  18. okt. 2011.

efling græna hagkerfisins á Íslandi.

7. mál
[14:25]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni yfirgripsmikla ræðu. Við ræðum náttúrlega mjög gott mál, sem er efling græns hagkerfis. En það var eitt sem ég hjó eftir og leiðir hugann að því að mér finnst við ekki hugsa nægilega glóbalt, þ.e. hnattrænt, við hugsum ansi mikið um naflann okkar.

Hv. þingmaður sagði að álframleiðsla á Íslandi ylli mikilli koldíoxíðmengun. Það er rétt ef maður horfir bara á álverin sjálf. En ef við horfum á álverin plús framleiðslu á rafmagni eins og þarf til að framleiða eitt kíló af áli snýst dæmið algjörlega við. Þá ætti eiginlega að vera skylda Íslendinga að framleiða mikið af áli því að mesti vöxturinn í álframleiðslu, og hann er umtalsverður, er í Kína. Þar er rafmagnið framleitt með brennslu kola sem þýðir tólf sinnum meiri mengun við framleiðslu á einu kílói af áli en á Íslandi.

Nú er það þannig að ál er talinn umhverfisvænn málmur. Hann léttir bifreiðar, minnkar eyðslu o.s.frv. og er notað mjög víða. Ég hef ekki heyrt af því að menn ætli sér að hætta notkun á áli í heiminum og notkun þess hefur vaxið mikið undanfarin ár. Þess vegna finnst mér að menn þurfi að horfa á vandamálið hnattrænt. Það er nefnilega þannig að við búum á einum hnetti, frú forseti, og mengun sem verður í Kína við að framleiða eitt kíló af áli skaðar mannkynið jafnmikið, hvort sem það er í Kína eða annars staðar. Það er því miklu hagkvæmara að framleiða þetta kíló af áli á Íslandi út frá mengunarsjónarmiðum. Það er spurning hvort það sé ekki skylda okkar Íslendinga að virkja sem mest. Því ég spyr hv. þingmann: Er það ekki skylda okkar Íslendinga sem erum með svona mikið af orku sem mengar lítið að virkja sem allra mest?