140. löggjafarþing — 11. fundur,  18. okt. 2011.

sókn í atvinnumálum.

10. mál
[15:20]
Horfa

Flm. (Birkir Jón Jónsson) (F):

Frú forseti. Það er ánægjulegt að fá tækifæri í dag til að mæla fyrir tillögu til þingsályktunar um sókn í atvinnumálum sem er byggt á vinnu Framsóknarflokksins um með hvaða hætti við getum sótt fram til að fjölga störfum í íslensku samfélagi á næstu tveimur til þremur árum og um leið fækka þeim hér á landi sem eru án atvinnu sem er eitt hið mesta böl sem getur hent hvern mann, eins og við þekkjum.

Þingsályktunartillagan er hluti af aðgerðaáætlun sem nefnd hefur verið plan B og þingflokkur Framsóknarflokksins kynnti í gær þar sem farið er heildstætt yfir tillögur og áherslur Framsóknarflokksins þegar kemur að málefnum íslensks efnahagslífs og atvinnulífs. Hér er eðli málsins samkvæmt um mjög umfangsmikið mál að ræða.

Eins og ég gat um áðan byggja atvinnumálatillögur okkar á mjög víðtæku samráði sem Framsóknarflokkurinn átti við hagsmunaaðila í íslensku atvinnulífi á síðasta vori þannig að mér gefst varla tóm til að fara með fullnægjandi hætti á 15 mínútum yfir allar þær tillögur sem við leggjum til til sóknar í íslensku atvinnulífi.

Í þingsályktunartillögu okkar er farið mjög vítt, eins og ég sagði áðan:

1. Kveðið er á um aðgerðir í efnahags- og skattamálum.

2. Kveðið er á um vinnumarkaðsaðgerðir.

3. Farið er yfir stoðkerfi atvinnulífsins.

4. Farið er yfir umhverfi nýsköpunar í íslensku samfélagi og hvernig hvetja megi til nýsköpunar.

5. Farið er yfir hugverkaiðnaðinn og rekstrarumhverfi þeirra fyrirtækja.

6. Farið er yfir kvikmyndagerð og tónlist og þau tækifæri sem felast í þeim atvinnugreinum.

7. Farið er yfir ferðaþjónustuna og þau tækifæri sem þar er að finna til framtíðar litið.

8. Vikið er að landbúnaðarmálum og þeim fjölmörgu tækifærum sem við eigum í þeirri mikilvægu atvinnugrein.

9. Farið er yfir orkumál og orkuskipti.

10. Farið er yfir uppbyggingu í mannaflsfrekum iðnaði.

11. Farið er yfir sjálfbært fjármálakerfi og þá framtíðarsýn sem við viljum sjá í þeim efnum.

Eins og einhverjir hafa tekið eftir er ekki minnst á sjávarútveg í þingsályktunartillögunni, sem þó er undirstöðuatvinnugrein þjóðarinnar. Því er til að svara að þar hefur mikil vinna átt sér stað undir forustu hv. þm. Sigurðar Inga Jóhannssonar og höfum við lagt fram á Alþingi áherslur Framsóknarflokksins í sjávarútvegsmálum og mun það mögulega verða rætt eitthvað í þessari umræðu.

Það er mjög slæmt að 12–13 þúsund Íslendingar skulu vera án atvinnu í dag og við höfum horft á þúsund einstaklinga fara úr landi vegna þess að þeir hafa ekki haft atvinnu við sitt hæfi. Því miður horfum við upp á þá þróun að fólk flyst úr landi og hefur störf erlendis og sú þróun virðist ekki vera að stöðvast. Það er mjög alvarlegt fyrir íslenskt samfélag og íslenskt efnahagslíf og við þurfum að breyta því.

Þá vil ég koma að hinu almenna umhverfi íslensks atvinnulífs. Staðreyndin er sú að á síðustu rúmum tveimur árum í tíð hæstv. ráðherra Steingríms J. Sigfússonar hafa yfir 100 breytingar verið gerðar á skattkerfinu. Tugir þeirra snúa að rekstrarumhverfi íslensks atvinnulífs. Það er mjög alvarlegt að heyra fréttir eins og bárust í dag að rúmlega þriðjungur aðildarfyrirtækja Samtaka atvinnulífsins telji aðgerðir stjórnvalda, m.a. í skattamálum, vera helsta vandamál fyrirtækja á Íslandi í dag. Rúmlega fjórðungur fyrirtækja aðildarfélaga Samtaka atvinnulífsins setja aðgerðir ríkisstjórnarinnar í annað sæti yfir það sem stendur íslensku atvinnulífi fyrir þrifum. Það er skoðun þeirra sem vinna í íslensku atvinnulífi. Þess vegna leggjum við til að farið verði með betri hætti yfir samskipti stjórnvalda og atvinnulífsins og að við endurskoðum þau vinnubrögð sem verið hafa við lýði þegar kemur að rekstrarumhverfi atvinnulífsins. Það hefur því miður verið til mikils vansa.

Ég man að haustið 2009 fengum við á Alþingi 10 daga til að fara yfir mjög umfangsmiklar breytingar á skattumhverfi fyrirtækja og reyndar heimila, sem er óviðunandi. Við leggjum því til að gerður verði sérstakur gæðasáttmáli á milli atvinnulífsins og stjórnvalda um með hvaða hætti menn ráðast í grundvallarbreytingar sem þær.

Við viljum líka að skipaður verði starfshópur stjórnvalda og hagsmunaaðila sem endurskoða mun skattumhverfi og að þær tillögur verði kynntar opinberlega með góðum fyrirvara áður en þær koma til framkvæmda. Því miður hefur verið löstur á starfi þessarar ríkisstjórnar að það samráð sem boðað var fyrir síðustu kosningar m.a. um hvernig menn mundu endurskoða skattkerfið hefur verið í skötulíki. Sjálfur var ég skipaður í nefnd sem átti að endurskoða og fara yfir breytingar á skattkerfinu, skattumhverfi fyrirtækja og heimilanna í landinu. Það er skemmst frá því að segja að sá hópur var skipaður árið 2009 og ég held að hann hafi hist í ein þrjú skipti, síðast haustið 2009. Það eru því tvö ár síðan sá samráðshópur var kallaður saman þrátt fyrir að við höfum horft upp á gríðarlegar breytingar á rekstrarumhverfi og skattumhverfi almennings og fyrirtækja. Það samráð er því einungis í orði en ekki á borði sem menn ræddu um fyrir síðustu alþingiskosningar.

Því viljum við framsóknarmenn breyta og hefja alvörusamvinnu á milli hagsmunaaðila og stjórnvalda þegar kemur að grundvallarbreytingum sem þessum. Með þeim hætti viljum við nálgast verkefnið, við viljum hvetja til fjárfestinga í gegnum skattkerfið í íslensku atvinnulífi en ekki letja til þess, en núverandi umhverfi er beinlínis til þess gert að letja til fjárfestinga. Það er búið að flækja skattumhverfið og heyrst hafa mjög bagalegar yfirlýsingar forsvarsmanna ríkisstjórnarinnar um málefni og umhverfi fyrirtækja er varða skattaleg málefni. Eins hefur stefna stjórnarinnar gagnvart erlendri fjárfestingu leitt það af sér að erlendir aðilar hafa forðast að fjárfesta í íslensku atvinnulífi sem hefur orðið til þess að í dag greiðum við 24–25 milljarða á ári í atvinnuleysisbætur og horfum því miður upp á fólksflótta héðan og atvinnuleysi. Því þurfum við að breyta.

Það getur vel verið að einhverjum finnist að nálgun okkar, eða alla vega mín, í þessari umræðu sé frekar neikvæð en raunin er því miður sú að það eru erfiðleikar í íslensku efnahagslífi og íslensku atvinnulífi. En það góða er að tækifærin eru svo sannarlega til staðar og eftir að hafa farið yfir rekstrarumhverfi og sóknarfæri íslensks atvinnulífs, eins og fram kemur í þingsályktunartillögunni, getum við sótt fram á mörgum stöðum til að fjölga atvinnutækifærum í okkar ágæta landi.

Fram hefur komið að eftir að hafa kannað vinnumarkaðinn er ljóst að ráðast þarf í vinnumarkaðsaðgerðir. Gera þarf úttekt á þörfum atvinnulífsins og atvinnulausra gagnvart námi og námsframboði, það kom m.a. fram í viðræðum við fyrirtæki í hugverkaiðnaði. Það á við um mörg af okkar glæsilegustu fyrirtækjum; CCP, Marel og Actavis. Það kom mjög greinilega fram að íslenskt menntakerfi „framleiðir“ einfaldlega ekki nægilega mikið af starfsfólki þannig að þessi fyrirtæki geti fengið vinnuafl innan lands til að styrkja samkeppni sína. Þessi fyrirtæki eru í alþjóðlegri samkeppni, þau eru með mörg þúsund manns í vinnu, oft og tíðum vel menntað ungt fólk, og eru í mikilli samkeppni á alþjóðavísu við að halda samkeppnisforskoti sínu.

Þá komum við að starfsumhverfi þessara atvinnugreina sem er augljóslega verra hér á landi en til að mynda í Kanada og fleiri löndum sem við viljum bera okkur saman við. Ef við breytum ekki rekstrarumhverfi þessara fyrirtækja mun það leiða það af sér að þau munu á endanum flytja starfsemi sína úr landi. Við þurfum að sporna gegn því að svo glæsileg og myndarleg fyrirtæki fari úr landi og því leggjum við til að rekstrarumhverfi þessara fyrirtækja verði skoðað sérstaklega og að við stöndum vörð um þá starfsemi. Vonandi getum við þá sótt fram.

Við leggjum líka til að lögum um stuðning við nýsköpunarfyrirtæki verði breytt þannig að stuðningur við þau verði í formi afsláttar á staðgreiðslu skatta og á rannsóknar- og þróunarkostnaði. Við höfum líka mælst til þess fjárfesting í nýsköpun hér á landi verði aukin, til að mynda með því að veita skattafslátt vegna kaupa á hlutabréfum í slíkum sprotagreinum.

Ef nefna á aðra þætti skapandi greina má nefna kvikmyndagerð og tónlist. Við eigum glæsilega fulltrúa á sviði kvikmyndagerðar og tónlistar hér á landi. Eftir að hafa skoðað umhverfi kvikmyndagerðar teljum við að hækka eigi endurgreiðsluhlutfall vegna kostnaðar vegna kvikmyndaframleiðslu hér á landi úr 20% upp í 25%. Þannig svörum þeirri þróun sem átt hefur sér stað víða í Evrópu þar sem þjóðir hvetja til kvikmyndagerðar í þeim löndum.

Við viljum líka að tónlistariðnaðurinn verði færður í sama umhverfi og kvikmyndagerðin hér á landi og að erlendir aðilar geti komið hingað til lands, tekið upp tónlist í upptökuverum hér á landi og fengið endurgreiddan hluta þess kostnaðar sem greiddur er. Síðan gætu þeir í framhaldinu jafnvel gert tónlistarmyndbönd. Þá yrði slík starfsemi svipuð og nú er í íslenskri kvikmyndagerð, en hún er mjög mikilvæg til að mynda í íslenskri ferðaþjónustu, eins og við þekkjum. Við höfum séð að mörg verkefni sem koma frá útlöndum styrkja ferðaþjónustuaðila vítt og breitt um landið. Varðandi ferðaþjónustuna leggjum við til í þingsályktunartillögunni að ferðaþjónustan verði stórefld og þá sérstaklega utan háannatímans, enda vitum við að langmesti annatíminn er á vorin og sumrin og stutt fram á haustið, en utan þess tíma, þ.e. yfir veturinn, er ferðaþjónusta í landinu mjög takmörkuð. Þá standa mjög stórar fjárfestingar ónýttar. Þess vegna teljum við að ráðast eigi í markaðsátak með aðilum í ferðaþjónustunni. Það er hliðstætt því átaki sem ríkisstjórnin hefur boðað en það er ágætt að nefna að við lögðum það einmitt til á flokksþingi okkar fyrir nokkuð mörgum mánuðum. Við framsóknarmenn fögnum því þess vegna að hæstv. ríkisstjórn skuli hafa ráðist í slíkt átak og erum við mjög sammála þeirri stefnumörkun.

Hv. þm. Sigurður Ingi Jóhannsson ætlar að koma að málefnum landbúnaðarins á eftir og eins hv. þm. Sigurgeir Sindri Sigurgeirsson, hef ég heyrt. Því miður kemst maður yfir allt of fáa hluti þegar kemur að svona umfangsmiklu skjali sem hér um ræðir enda hef ég bara 15 mínútur til þess.

Mig langar að lokum að nefna að það er nauðsynlegt að við höldum áfram að nýta þá innlendu umhverfisvænu orku sem til staðar er í landinu. Við höfum því miður oft fengið neikvæðar fréttir á undanförnum dögum, vikum og mánuðum varðandi nýtingu innlendrar orku til að skapa störf í margvíslegum iðnaði. Þar þarf ríkisstjórnin að breyta um áherslur vegna þess að við höfum í um þrjú ár misst af mörgum tækifærum til að skapa þúsund starfa á því sviði. Þannig gætum við eflt íslenskan iðnað til verulegra muna en öll þekkjum við það erfiða starfsumhverfi sem iðnaðurinn býr við í dag.

Það er margt sem við leggjum til í atvinnumálatillögum okkar og þeim efnahagstillögum sem þingflokkurinn lagði til undir forustu hv. þm. Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar, formanns Framsóknarflokksins, í síðustu viku. Það er ósk mín að við förum málefnalega yfir þessi mál í umræðunni og að farið verði vel yfir þessi mál í nefnd. Vonandi munum við ekki fara aftur í það hjólfar að hugmyndunum verði hafnað vegna þess að þær koma frá Framsóknarflokknum, hér er nefnilega um mjög vel ígrundaða stefnu (Forseti hringir.) að ræða. Svo ég endi ræðu mína á jákvæðum nótum eru svo sannarlega mörg tækifæri fyrir hendi.