140. löggjafarþing — 11. fundur,  18. okt. 2011.

sókn í atvinnumálum.

10. mál
[15:40]
Horfa

Magnús Orri Schram (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Já, ég held að við getum sótt fram til skemmri tíma með margvíslegum aðgerðum og stuðlað að atvinnuuppbyggingu í landinu. Þær aðgerðir ættu ekki að þurfa að kosta svo mikla peninga vegna þess að við þurfum í ljósi ástandsins að horfa vel í budduna og velta því ítarlega fyrir okkur hvort við getum haft aðhald í ríkisfjármálum um leið og við sækjum fram. Það held ég að sé hægt að gera t.d. með því að innleiða hagræna hvata hvað snertir grænar áherslur sem voru til umræðu í þinginu fyrr í dag. Við getum gert það með því að styrkja menntakerfið, auka úrræði í framhaldsnámi, tækni- og iðnmenntun og fleira mætti nefna.

Ég held hins vegar umræðunnar vegna að við ættum að stíga varlega til jarðar í að nefna þúsundir starfa. Stjórnmálamenn eiga það oft til að koma með of sterkar yfirlýsingar í þeim efnum. (BJJ: Ríkisstjórnin.) Það eru margir undir þá sökina seldir, hv. þingmaður. Ég held að við ættum miklu fremur að vinna að því að koma verkefnum á koppinn, koma þeim í gang og sjá svo hvað úr verður og líta á tölurnar í baksýnisspeglinum.

Ég hefði hins vegar viljað sjá metnaðarfyllri hugmyndir á sviði landbúnaðarmála svo að ég segi það skýrt og það komi fram og verði fært til bókar hjá hæstv. forseta. Það kemur kannski ekki mörgum á óvart í þessum sal að ég hefði viljað sjá (ÁsmD: Metnaðarfyllri?) metnaðarfyllri hugmyndir á sviði landbúnaðarmála. Þar á að sækja ákveðnar fram með meira sjálfstraust enda eru íslenskar afurðir fyllilega samkeppnishæfar ef við mundum opna meira fyrir samkeppni, stuðla að frekari nýsköpun og gefa bændum möguleika á að sækja fram á sviði arðsemi ekki síður en vöruþróunar.