140. löggjafarþing — 11. fundur,  18. okt. 2011.

sókn í atvinnumálum.

10. mál
[15:47]
Horfa

Flm. (Birkir Jón Jónsson) (F) (andsvar):

Frú forseti. Já, það hefur verið gert kostnaðarmat á einstaka þætti þessara tillagna. Það má finna í fylgiskjali með þingsályktunartillögunni. Þar er sem sagt metið hver kostnaðurinn er við einstakar aðgerðir. Sú nálgun sem höfð var við þessi verkefni og þær tillögur sem hér eru nefndar varðar aukin framlög til kvikmyndagerðar og tónlistar. Eftir yfirlegu yfir því hvaða virðisauka framlög til þeirra atvinnugreina mundu skila kom í ljós að ávinningurinn yrði meiri af því að leggja fram fjármuni og fjárfesta í þeim. Meira kemur inn í formi skatta og launagreiðslna í íslenskt samfélag en sem nemur framlögunum. Við höfum verið að benda á aðgerðir sem annars vegar kosta og skila sér þá í auknum skatttekjum til lengri tíma litið til samfélagsins, heimilanna og fyrirtækjanna í landinu og hins vegar aðgerðir sem kosta ekki neina beina fjármuni. Það kostar t.d. ekki fjármuni að breyta rekstrarumhverfi atvinnulífsins og innleiða slíkar breytingar. Nær undantekningarlaust í samtölum við forsvarsmenn íslensks atvinnulífs var gagnrýnt með hvaða hætti ríkisstjórnin hefur gengið fram þegar kemur að því að breyta rekstrarumhverfi fyrirtækjanna. Þar hefur verið haft takmarkað samráð og breytingar kynntar með mjög stuttum fyrirvara þannig að mikil óvissa hefur verið um rekstrarumhverfi fyrirtækjanna. Við leggjum fram tillögur um að breyta verklaginu og innleiðum ákveðinn gæðasáttmála um það hvernig slíku verklagi verði háttað.

Ég vona að hv. þingmaður geti verið mér sammála um það að margar þær skattbreytingar sem hafa farið í gegn á undanförnum árum hefði mátt kynna betur og gera í meira samráði (Forseti hringir.) við íslenskt atvinnulíf en raunin varð.