140. löggjafarþing — 11. fundur,  18. okt. 2011.

sókn í atvinnumálum.

10. mál
[15:49]
Horfa

Björn Valur Gíslason (Vg) (andsvar):

Forseti. Það dugar mér einfaldlega ekki af fenginni reynslu, reyndar stuttri og mun styttri reynslu í þessu starfi en hv. þm. Birkir Jón Jónsson hefur, að segja að ávinningurinn sé meiri en útgjöldin. Það hef ég reynt í því starfi sem ég hef haft hér og þá sérstaklega í fjárlaganefnd. Þess vegna vil ég sjá um það einhverjar tölur, einhverjar upplýsingar, eitthvað sem sannfærir mig um að þannig sé það. Ef þetta er einfaldlega eins og margir vilja halda fram og reyndar allt of margir, að mér finnst, að aukin útgjöld skapi enn meiri tekjur þá eigum við að moka peningum út alveg skilyrðislaust hægri, vinstri eins og við getum. Þetta eru þau rök sem við heyrum víðast hvar en það stendur oft ekki mikið á bak við þegar frekar er skoðað. Ég vil þó segja að í einstaka tilfellum í þessum tillögum Framsóknarflokksins geti svo verið en það vantar eitthvað áþreifanlegt til að geta rökrætt það (Gripið fram í.) og tekist á um það.

Mig langar að vekja máls á þeirri umræðu sem hv. þingmaður nefndi í ræðu sinni þegar hann fylgdi málinu úr hlaði, talaði um skattbreytingar og fór reyndar inn á það í andsvari við mig áðan að þær hefðu verið óréttlátar og ósanngjarnar og ekki unnar í samráði við aðila vinnumarkaðarins að nægilega miklu leyti, að mati þingmannsins. Ísland er ekki nema á rólinu frá 10., 11. og niður í 15. sæti OECD-ríkja og Evrópuríkja varðandi skatthlutfall bæði á einstaklinga og fyrirtæki. Við erum í 11. sæti varðandi skattlagningu á fjármagnstekjuskatt. (BJJ: Hvað með lífeyrissjóðina?) Við erum í 12. sæti OECD-ríkja varðandi skattlagningu á almenning og á bilinu 12.–15. sæti í skattlagningu á fyrirtæki. Ég spyr: Hvert hafa fyrirtæki flúið undan íslenskum sköttum (Forseti hringir.) til að komast í lægri skatta?