140. löggjafarþing — 11. fundur,  18. okt. 2011.

sókn í atvinnumálum.

10. mál
[16:19]
Horfa

Ásmundur Einar Daðason (F) (andsvar):

Frú forseti. Ég skil hv. þingmann þannig, og það eru mjög merkileg tíðindi, að hann sé hugsanlega sammála þeim mönnum innan atvinnulífsins sem talað hafa fyrir einhliða upptöku annars gjaldmiðils en evrunnar. Ég tel það mjög jákvætt að hv. þingmaður sé búinn þeirri víðsýni sem margir félagar hans eru ekki. Það er alveg hárrétt að stór hluti af vöruskiptum okkar fara til Evrópusambandsins, þ.e. að skipafélögin og farmbréfin eru stíluð á hafnir innan Evrópusambandsins. En sé hins vegar rýnt í tölurnar og gjaldmiðlana sem þar eru að baki er stærstur hluti af útflutningi okkar Íslendinga í bandaríkjadollurum eða um 37%. Svo kemur evran með 27% og breska pundið með 14%. Ef við horfum til þess í hvaða gjaldmiðli við eigum mest viðskipti væri nærtækast að taka upp bandaríkjadollar. Er það ekki einmitt það sem talað var um fyrir hrun að það væri mjög slæmt að vera með lán í annarri mynt en tekjurnar? Það er einmitt það sem er að gerast þegar menn einblína á evruna.

Ég ítreka spurningu mína til hv. þm. Sigmundar Ernis Rúnarssonar um hvort hann sé þá sammála mönnum innan Samtaka iðnaðarins, Samtaka atvinnulífsins og sífellt fleirum innan atvinnulífsins sem eru mótfallnir því að leggja svo gríðarlega áherslu á að fara inn í hagvaxtarlamandi hagkerfi sem tekur nú mikla og kannski mjög langvinna dýfu. Menn hafa áhyggjur af því að það geti einfaldlega farið að hamla vexti fyrirtækja og eru fylgjandi því að við förum að einbeita okkur að því að skoða aðra gjaldmiðlamöguleika, hugsanlega norsku krónuna, kanadadollar eða bandaríkjadollar.

Svo vísa ég því að sjálfsögðu alfarið á bug að ríkisstjórnin (Forseti hringir.) í landinu vinni ekki gegn atvinnuuppbyggingu. Það liggur alveg ljóst fyrir og hefur margítrekað komið fram.