140. löggjafarþing — 11. fundur,  18. okt. 2011.

sókn í atvinnumálum.

10. mál
[16:23]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Það er ástæða til að þakka hv. þingmanni fyrir góða ræðu og fyrir að sýna þessu máli áhuga. En getur hv. þingmaður tekið undir það með mér, þótt hann hafi nefnt að ríkisstjórnin þurfi að beita öllum leiðunum þremur sem hann skilgreindi sem svo, niðurskurði, skattahækkunum og aukinni verðmætasköpun, þótt við getum verið sammála um að niðurskurður hafi verið nauðsynlegur og aukin verðmætasköpun líka, að ekki eigi að ráðast í skattahækkanir sem draga úr verðmætasköpuninni, sérstaklega ef það dregur úr verðmætasköpuninni að því marki að tekjurnar verða enn minni fyrir vikið? Af því að hv. þingmaður nefndi að ekki mætti gagnrýna slökkviliðið þegar það stæði í brunarústum má auðvitað gagnrýna slökkviliðið ef það hellir olíu á eldinn, og það er ég ansi hræddur um að ríkisstjórnin hafi í mörgum tilvikum gert.

Annað sem ég vildi gjarnan spyrja hv. þingmann út í varðar það sem hann nefndi um mikilvægi fjölbreytileika atvinnulífs á landsbyggðinni og sérstaklega mikilvægi þess að sem flest kvennastörf yrðu til. Skýtur það þá ekki svolítið skökku við að nú áformi menn að skera verulega niður í kvennastörfum í heilbrigðisþjónustu á Norðausturlandi? Er því ekki öfugt farið, miðað við það sem hv. þingmaður sagði og við erum sammála um að sé mikilvægt, að auka fjölbreytileika í atvinnulífinu, að skera niður fjölbreytileikann með því að leggja að miklu leyti af heilbrigðisþjónustu í einum landshluta? Það bitnar sérstaklega á kvennastörfum.