140. löggjafarþing — 11. fundur,  18. okt. 2011.

sókn í atvinnumálum.

10. mál
[16:25]
Horfa

Sigmundur Ernir Rúnarsson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þm. nafna mínum Davíð Gunnlaugssyni fyrir innleggið. Varðandi kvennastörfin hef ég verið ólatur við að gagnrýna hvernig niðurskurður í störfum á sviði heilbrigðismála hefur einkum og sér í lagi bitnað á kvenfólki, að þrjár af hverjum fjórum stöðum sem skornar hafa verið niður í heilbrigðismálum hafa verið kvennastörf, sú tölfræði er augljós. En þá ber að hafa í huga að sjálfdæmið er forstöðumanna heilbrigðisstofnana og þeir hafa fengið fullt frelsi til að skera niður í störfum. Það hefur verið val þeirra og mér hefur þótt mjög miður að niðurskurðurinn, þegar kemur að störfum, hefur sérstaklega bitnað á láglaunakonum. Menn hafa ekki þorað að fara í hinar öflugu stéttir lækna og hjúkrunarfólks en fremur skorið niður á sviði sjúkraliða og ræstitækna. Það er veruleikinn.

Ég tel hins vegar að við höfum náð að verja störf. Ríkið hefur tapað nálægt 400 störfum nettó við fordæmalausar aðstæður sem nú ríkja í atvinnumálum. Það er varðstaða að mínu viti að hafa ekki tapað fleiri störfum. En það vekur hins vegar athygli að það er að stærstum hluta, um 70%, í heilbrigðiskerfinu og tel ég þar vera nóg komið að sinni meðan við höfum ekki enn þá fengið svar við því hvernig við viljum breyta skipulaginu í þeim lið.

Ég kem e.t.v. að skattamálunum í seinna andsvari mínu en þar held ég (Forseti hringir.) að við séum ekki aldeilis ósammála.