140. löggjafarþing — 11. fundur,  18. okt. 2011.

sókn í atvinnumálum.

10. mál
[16:28]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Forstöðumenn þessara heilbrigðisstofnana standa frammi fyrir því að flestir starfsmennirnir eru konur og því leiðir fækkun starfa til þess að hlutfallslega fleiri konur missa vinnuna. Mátti skilja hv. þingmann sem svo að hann vildi þá að menn segðu upp fleiri læknum og hjúkrunarfræðingum? Ég er dálítið hræddur um að hjúkrunarfræðingarnir alla vega séu flestir konur og eflaust stór hluti læknanna líka.

Spurningin er þessi: Er hv. þingmaður sáttur við þann niðurskurð sem boðaður er í kjördæmi hans þar sem hann þekkir best til, á Norðausturlandi, á sviði heilbrigðisþjónustu? Fyrst maður er kominn yfir í það kjördæmi má líka setja það í samhengi við það sem hv. þingmaður sagði um sjávarútvegsmálin. Telur hv. þingmaður til að mynda að útgerðarmenn á Akureyri gætu tekið undir það sem hv. þingmaður hélt fram í ræðu sinni að boðaðar aðgerðir ríkisstjórnarinnar í sjávarútvegsmálum væru til þess fallnar að auka stöðugleika? Þegar menn vita ekki einu sinni hversu langan tíma verið er að ræða um, er þá hægt að tala um að verið sé að auka stöðugleika í greininni eða er með því verið að ýta undir óróa og algera óvissu?

Varðandi landbúnaðinn þá birtist einmitt í þessum tillögum mikið sjálfstraust hvað varðar landbúnaðinn, þ.e. sú trú að landbúnaður sé ein af greinum 21. aldarinnar þar sem vöxturinn verði gríðarlega mikill, þar sem von sé á verðhækkunum svo langt sem menn geta spáð og staða Íslands til að framleiða matvæli verði með því allra besta sem gerist.