140. löggjafarþing — 11. fundur,  18. okt. 2011.

sókn í atvinnumálum.

10. mál
[17:13]
Horfa

Björn Valur Gíslason (Vg) (andsvar):

Forseti. Ég þakka hv. þm. Birki Jóni Jónssyni fyrir ræðuna, aðra eða þriðju ræðuna (BJJ: Aðra.) — aðra sennilega í dag, um þetta þingmál og þessa þingsályktunartillögu sem hann flytur fyrir hönd Framsóknarflokksins. Hann óskaði eftir málefnalegri umræðu um þær tillögur sem þarna koma fram þó að hann hafi aðeins vikið út af því í ræðu sinni áðan.

Hv. þingmaður eyddi talsverðum tíma ræðu sinnar í að fullyrða að Vinstri hreyfingin – grænt framboð stæði gegn atvinnuuppbyggingu á Norðurlandi án þess að færa fyrir því nokkur sérstök rök. (Gripið fram í.) Hv. þingmaður fullyrti að Vinstri hreyfingin – grænt framboð stæði gegn atvinnuuppbyggingu á Norður- og Norðausturlandi, Þingeyjarsýslum og víðar, án þess að færa fyrir því nokkur rök, ekki ein einustu rök sem hv. þingmaður færði fyrir því. Hv. þingmaður sagði einnig að Vinstri hreyfingin – grænt framboð stæði í vegi fyrir atvinnuuppbyggingu vegna þess að ekki er samstundis stokkið á kauptilboð erlendra aðila á 0,3% af Íslandi fyrir einn milljarð.

Ég spyr: Er hv. þingmaður þá að mælast til þess að þegar slík kauptilboð berast í hluta landsins að þeim sé tekið umræðulaust, ekki sé gætt að fyrirvörum, ekki sé athugað í hvaða tilgangi þessi kaup fara fram, ríkið eða þjóðin sem á þetta land, þegar upp er staðið, auðlindirnar sem þar eru undir og kunna að finnast, að ekki séu sett nein skilyrði fyrir því hvernig nýir kaupendur og nýir eigendur fara með landið, hvort þeir selji það, hvort þeir nýti það með öðrum hætti en gengið var út frá þegar kaupin voru gerð? Er það ekki eðlilegur farvegur, er það ekki góð stjórnsýsla, þegar slíkt kemur upp á, að málið fari þá í vinnslu innan (Forseti hringir.) Stjórnarráðsins áður en kauptilboðum er annaðhvort hafnað eða þau eru samþykkt?