140. löggjafarþing — 11. fundur,  18. okt. 2011.

sókn í atvinnumálum.

10. mál
[17:15]
Horfa

Flm. (Birkir Jón Jónsson) (F) (andsvar):

Frú forseti. Ég held að væri nær að hv. þingmaður gerði Alþingi grein fyrir því hvaða skoðun hann hefur á því að byggt verði upp heilsuhótel á Grímsstöðum á Fjöllum, að hestabúgarður rísi þar og 18 holu golfvöllur — hvort hann sé á móti þeirri uppbyggingu. Það hefur komið fram hjá samflokksmanni hans, hæstv. innanríkisráðherra, að þessi uppbygging, það að bregðast við umsóknum um að fara í slíka uppbyggingu, sé hreint og beint ekkert forgangsmál í sínu ráðuneyti, það geti nú beðið umfram margt annað sem komi þar inn á borðið. Hv. þingmaður skal þá bara viðurkenna að það er ekkert forgangsmál hjá Vinstri hreyfingunni – grænu framboði að ráðist verði í þessa atvinnuuppbyggingu. Að sjálfsögðu þarf að svara ákveðnum spurningum. En að það taki fimm vikur að svara þeim ágæta manni sem er að skoða það að hefja uppbyggingu þarna á þessu svæði, að það taki fimm vikur að spyrja frekari spurninga, hvað á þetta að taka langan tíma? Ég er ekki að tala um að menn eigi ekki að skoða hlutina, en það hefur bersýnilega komið fram hjá hæstv. ráðherra að það sé ekki forgangsmál að afgreiða þessa beiðni frá þeim aðila sem vill skoða þessa uppbyggingu. Hv. þingmaður getur heldur ekki neitað því að frá degi eitt hefur Vinstri hreyfingin – grænt framboð verið á móti þeim uppbyggingaráformum sem Alcoa hefur haft í Þingeyjarsýslu — frá degi eitt, hefur staðið í vegi fyrir því.

Ég vil spyrja hv. þingmann, af því að hann er varaformaður fjárlaganefndar, hvort ekki eigi að standa við viljayfirlýsingu sem gerð var síðastliðið vor um að staðinn verði vörður um uppbyggingu opinberrar þjónustu í Þingeyjarsýslum, kannski sérstaklega í ljósi nýlegra tíðinda um að atvinnuuppbyggingin (Forseti hringir.) verði ekki eins og hún ætti að vera. Munu stjórnvöld standa við þær yfirlýsingar sem þau hafa skrifað undir gagnvart heimamönnum?