140. löggjafarþing — 11. fundur,  18. okt. 2011.

sókn í atvinnumálum.

10. mál
[17:18]
Horfa

Björn Valur Gíslason (Vg) (andsvar):

Virðulegur forseti. Nú er ég að koma upp í fjórða sinn í andsvör við hv. þm. Birki Jón Jónsson um þetta ágæta mál og enn hefur hann ekki svarað þeim spurningum sem ég beini til hans um hans ræður og enn hefur hann ekki boðið upp á þá málefnalegu umræðu sjálfur sem hann þó óskaði eftir í upphafi snemma dags að færi fram um þetta annars ágæta mál. Ég hef reynt að fara í einstaka þætti málsins, en því miður virðist þingmaðurinn annaðhvort ekki vera í stakk búinn til þess eða ekki í skapi til þess í dag að eiga málefnalegar umræður um það sem hér fer fram. Ég spurði ákveðinna spurninga en fékk engin svör við því, þannig að ég sé engan tilgang í því að halda þessum rökræðum áfram, forseti.