140. löggjafarþing — 11. fundur,  18. okt. 2011.

sókn í atvinnumálum.

10. mál
[17:31]
Horfa

Flm. (Birkir Jón Jónsson) (F) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þm. Pétri H. Blöndal fyrir að blanda sér í umræðuna. Það hefði verið leiðinlegur bragur á því ef fulltrúi Sjálfstæðisflokksins hefði ekki tekið þátt í umræðu um uppbyggingu í atvinnumálum, en það innlegg hefur nú komið fram.

Mér brá hins vegar þegar hv. þingmaður nefndi að það vantaði stóran hluta inn í þá þingsályktun sem ég mælti fyrir og var hann þá að tala um hvatningu til sparnaðar í íslensku samfélagi. Við framsóknarmenn kynntum í gær svokallað plan B sem er heildarstefnumörkun í atvinnumálum og fjallar hún jafnframt um stöðugleika í efnahagsmálum og framtíðarsýn okkar í þeim efnum. Mælt var fyrir því síðasta fimmtudag, að mig minnir, af hv. þm. Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni, formanni Framsóknarflokksins. Þar er einmitt tekið á efnahagsmálunum og er sérstaklega vikið að því að fjármagnstekjuskattur miðist við raunverulega ávöxtun og að þar með verði tekið tillit til verðbólgu. Hv. þingmaður þekkir hvernig núverandi fyrirkomulag er. Við ræddum um atvinnumál, skattstefnu, breytingar á skattkerfinu og almennt um umhverfi efnahagslífsins, til að mynda gjaldmiðilsmál, í þeim tveimur tillögum sem við mæltum fyrir á fimmtudaginn og í dag. Svo að því sé til haga haldið höfum við allt undir hvað þessi mál varðar og hv. þingmaður getur þá kynnt sér tillögurnar á þskj. 5 sem mælt var fyrir í síðustu viku.