140. löggjafarþing — 11. fundur,  18. okt. 2011.

sókn í atvinnumálum.

10. mál
[17:37]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Það er hárrétt hjá hv. þm, Birki Jóni Jónssyni að fjármagnstekjur hafa áhrif á bætur almannatrygginga. Þær höfðu einu sinni helmingsáhrif, þ.e. 50% af fjármagnstekjum. Það var tillaga frá mér fyrir langalöngu þar sem ég benti á að mikið af fjármagnstekjum væru ekki tekjur heldur verðbætur sem héldu eingöngu við eigninni og þess vegna var ákveðið að það yrðu 50%.

Í hruninu var ákveðið að fara með það upp í 100%, ég skildi það alltaf þannig að það væri tímabundið. En það hlýtur að vera sárgrætilegt fyrir fólk sem fær kannski 2,5% vexti í bankakerfinu — það eru hámarksvextir á óverðtryggðum reikningum á innlánum, maður borgar af því skatt fyrst, 20%, þ.e. 0,5%, þá eru 2% eftir í 5% verðbólgu þar sem menn tapa og borga skatt af tapinu. Svo kemur tapið til frádráttar hjá Tryggingastofnun. Fólki hlýtur að líða ömurlega sem lendir í þeirri stöðu, að tapa, borga af því skatt og svo er tapið notað til frádráttar hjá Tryggingastofnun.

Ég held að menn þurfi að fara að snúa við blaðinu og fara að líta á raunvexti. Ef þeir eru neikvæðir ættu menn að geta dregið það frá skatti, það er þá raunverulegt tap. Það ætti að koma inn í Tryggingastofnun sem mínustekjur og ætti í rauninni að bæta upp lífeyrinn, Tryggingastofnun ætti þá að bæta mönnum upp tapið sem bankarnir valda þrátt gífurlegan gróða. Þrátt fyrir að bankarnir dæli tugum milljarða til skuldara hafa þeir ekki séð (Forseti hringir.) sóma sinn í því að halda innlánsvöxtum í takt við verðbólguna.