140. löggjafarþing — 11. fundur,  18. okt. 2011.

nýsköpunarátak til að stórefla heilsársferðaþjónustu úti á landi.

37. mál
[18:18]
Horfa

Logi Einarsson (Sf):

Hæstv. forseti. Ég fagna þessari tillögu sérstaklega. Ég er hins vegar ekki sammála hv. þm. Sigmundi Erni um að efling ferðaþjónustunnar úti á landi sé eina leiðin til að auka hagvöxt …

(Forseti (ÁRJ): Forseti biður hv. þingmann um að nefna þingmenn fullu nafni í ræðustól Alþingis.)

— hv. þm. Sigmundi Erni Rúnarssyni. Við þurfum að efla heilsársferðaþjónustu á öllu landinu.

Í framhaldi af þeim tíðindum sem bárust frá Húsavík í gær er ljóst að fram komin tillaga er miklu mikilvægari en kemur kannski fram í máli hv. þingmanns. Oft leiðist umræðan um atvinnuuppbyggingu út í þras þar sem einni atvinnugrein er jafnvel stefnt gegn annarri. Við þurfum að leita leiða til að styðja uppbyggingu ólíkra greina, greina sem geta stutt hver aðra þó að ólíkar séu og höfða til mismunandi hópa, kvenna og karla, yngri og eldri, menntaðra og ómenntaðra, þéttbýlis- og dreifbýlisbúa. Ferðaþjónustan er einmitt dæmi um slíka atvinnugrein sem getur komið annarri og gjörólíkri grein til hjálpar, nefnilega mannvirkjagerð.

Mannvirkjagerð er sú atvinnugrein sem hefur komið einna verst út úr kreppunni. Þúsundir manna eru atvinnulausar og kannski aðallega karlar úr þéttbýli. Þó að brýnt sé að koma þeim öllum í vinnu aftur er hins vegar tilgangslaust að byggja bara til að byggja. Að ferðaþjónustu starfar hins vegar mjög fjölskrúðugur hópur kvenna og karla. Fyrirtækin eru bæði lítil og stór í þéttbýli og dreifbýli. Vöxtur þessarar greinar getur þess vegna leikið lykilhlutverk í að koma mannvirkjagerð af stað að nýju. En það þarf hins vegar að gæta þess að uppbyggingin eigi sér stað með skipulegum hætti og mér fannst í umræðunni áðan allt of mikið bera á því að menn vilji rjúka af stað og æða áfram án þess að vanda sig. Það er nefnilega ekki sama hvernig hlutirnir eru gerðir og menn þurfa að vera tilbúnir til að taka þann tíma sem þarf vegna þess að það getur líka verið mjög dýrkeypt að flýta sér.

Við getum horft til Norðurlandanna, til dæmis til Norðmanna, hvernig þeir hafa markvisst verið að byggja upp ferðaþjónustuna og lagt aðaláherslu á gæðin. Ég er sammála hv. þm. Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni um að við þurfum að bæta hið manngerða umhverfi, það er ekki síst það sem fólk kemur til Íslands til að sjá utan hins hefðbundna ferðamannatíma. Það má benda á að nú þegar er hafin vinna við að skapa uppbyggingu ferðamannastaða faglega umgjörð.

Nýlega var gefið út rit á vegum Ferðamálastofu, Framkvæmdasýslu ríkisins og Hönnunarmiðstöðvar. Það rit heitir Góðir staðir og er eftir Borghildi Sturludóttur og er leiðbeiningarrit um uppbyggingu ferðamannastaða. Í því riti stendur, með leyfi forseta:

„Ritinu er ætlað að hjálpa ferðaþjónustuaðilum, forsvarsmönnum sveitarfélaga, félagasamtökum og öðrum framkvæmdaraðilum við skipulag og uppbyggingu áfangastaða ferðamanna. Þar er lögð áhersla á mikilvægi góðs undirbúnings og vandvirkni.“

Þessi vinna á rætur sínar að rekja í Framkvæmdasjóði ferðamanna sem iðnaðarráðuneytið stendur að af miklum myndarskap enda hefur hæstv. iðnaðarráðherra sýnt þessari hlið málsins mikinn skilning. Ég tek undir með hv. þm. Sigmundi Erni Rúnarssyni í þingsályktunartillögunni en ítreka enn og aftur mikilvægi þess að vanda sig við þessa uppbyggingu. Við verðum að hafa heildræna hugsun að leiðarljósi og þó að náttúran sé okkar helsta einkenni verðum við líka að huga að því hvernig við byggjum inn í náttúruna og það verðum við að gera af víðsýni, fagmennsku og virðingu fyrir sögu okkar og umhverfi.