140. löggjafarþing — 12. fundur,  19. okt. 2011.

skuldaúrvinnsla lánastofnana -- tjón af manngerðum jarðskjálftum -- aðgerðir í efnahagsmálum o.fl.

[15:11]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (S):

Frú forseti. Eins og fram kom í máli formanns Sjálfstæðisflokksins áðan leggjum við sjálfstæðismenn fram okkar efnahagstillögur í dag. Mig langar að eiga samtal við hv. formann fjárlaganefndar Sigríði Ingibjörgu Ingadóttur um meðal annars þær breytingar sem við leggjum til varðandi skatta. Það liggur alveg ljóst fyrir að við erum með mjög ólíka lífssýn hvað varðar skattamál. Við sjálfstæðismenn höfum alla tíð lagt áherslu á að hafa lága skatta og einfalt kerfi en hv. þingmaður og reyndar þingmenn alls stjórnarliðsins, samfylkingarmenn sem vinstri grænir, eru eindregnir stuðningsmenn hárra skatta og flókins skattkerfis. Þetta er sá veruleiki sem við búum við þrátt fyrir að fyrir liggi meðal annars könnun frá Harvard, virtri menntastofnun vestur í Bandaríkjunum, sem sýnir fram á allt annað með könnunum allt aftur til ársins 1971 sem sýnir fram á að þau ríki sem fóru leið lágra skatta og einfalds kerfis komust fyrr út úr kreppunni.

Mig langar að spyrja hv. þingmann hvort hún geti ekki tekið undir þær tillögur okkar sjálfstæðismanna sem snerta álögur er tengjast barnafjölskyldum, hvort hún styðji okkur sjálfstæðismenn ekki í því að lækka skatta, virðisaukaskatt á barnavörum og nauðsynjum sem tengjast barnauppeldi, ekki síst í ljósi þess að álögur á millistéttarfólk og barnafólk hafa verið auknar sérlega á umliðnum árum. Þetta er fyrri spurningin hjá mér.

Í öðru lagi langar mig líka til að vita hvort hún sé ekki líka stuðningsmaður okkar í Sjálfstæðisflokknum við að styðja við frekari hvata til fyrirtækja til að ýta undir enn frekari nýsköpun, m.a. til að fyrirtæki fari í að setja aukna styrki og aukin framlög inn í menntakerfið eða inn í menntunina, inn í nýsköpunina, íþróttir og menningu sem þurfa svo sannarlega á styrkjum að halda, ekki síst þegar erfitt er með flókið og hátt hlutfall skatta.

Ég vil spyrja þessarar einföldu spurningar: (Forseti hringir.) Styður ekki hv. þingmaður okkur sjálfstæðismenn í þessum eðlilegu og nauðsynlegu breytingum?