140. löggjafarþing — 12. fundur,  19. okt. 2011.

skuldaúrvinnsla lánastofnana -- tjón af manngerðum jarðskjálftum -- aðgerðir í efnahagsmálum o.fl.

[15:17]
Horfa

Höskuldur Þórhallsson (F):

Virðulegi forseti. Í Þingeyjarsýslum hefur ríkt samstaða um uppbyggingu álvers á Bakka. Þar hafa menn ekki skipað sér í fylkingar eða knattspyrnulið eins og lýst var áðan. Því skal haldið til haga að það voru sveitarstjórnarmenn Vinstri grænna og Samfylkingarinnar sem hófu þá vegferð sem nú er á enda og framsóknarmenn, sem eru með mikinn meiri hluta, beittu sér fyrir því að fá bæði sjálfstæðismenn og samfylkingarmenn með til að ná þessu markmiði fram.

Það ríkir mikil reiði og mikil vonbrigði í Þingeyjarsýslum, sérstaklega þegar menn áttuðu sig á því að það hlakkaði allverulega í mörgum stjórnarliðum í umræðunni í gær. Mönnum finnst sárt að heyra að ekki sé nægileg orka í Þingeyjarsýslum jafnvel þó að fyrir liggi að hægt verði að ná um 525 megavöttum, og 325 eru nú þegar í húsi. Menn spyrja: Af hverju er ekki hægt að taka umframorkuna af landsnetinu? Þarf hún öll að koma úr Þingeyjarsýslu?

Til að útrýma þeirri tortryggni sem ég tel mjög eðlilega af hálfu þeirra sem búa í Þingeyjarsýslum hef ég ákveðið að leggja fram þingsályktunartillögu þar sem segir svart á hvítu að sú orka sem finnist í Þingeyjarsýslum verði nýtt til atvinnuuppbyggingar á svæðinu. Ég vonast til að sú tillaga njóti brautargengis á Alþingi vegna þess að hún mun verða í anda þeirrar viljayfirlýsingar sem ríkisstjórnin gerði við sveitarstjórnarfulltrúa. Þar segir, með leyfi forseta:

„Aðilar eru sammála um mikilvægi þess að nýta jarðvarma í Þingeyjarsýslum til umfangsmikillar atvinnuuppbyggingar og eflingar byggðar á svæðinu.“

Frá þessum markmiðum má alls ekki hvika. (Forseti hringir.) Þingsályktunartillagan mun væntanlega liggja fyrir nú strax eftir helgi og ég vonast til breiðrar samstöðu allra þingflokka um þá niðurstöðu.