140. löggjafarþing — 12. fundur,  19. okt. 2011.

aðgerðaáætlun um tóbaksvarnir.

20. mál
[16:06]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S):

Virðulegi forseti. Ég vona að ég hafi ekki skilið hv. þingmann svo að hún hafi verið að gera lítið úr því sem sjálfstæðismenn hafa gert í forvarnamálum. Ég rétt leyfi mér að vona að hv. þingmaður hafi kynnt sér þá heilsustefnu sem var kynnt hér á haustmánuðum 2008. Ég veit ekki til þess að nokkurn tímann hafi verið metnaðarfyllra plagg lagt fram með alhliða stefnumótun um forvarnamál á Íslandi, þar sem voru mælanleg markmið á öllum þeim þáttum sem ég fór yfir.

Virðulegi forseti. Ég held að hv. þingmaður geti ekki alveg afgreitt það þannig að það sé ekkert mál fyrir heilsugæsluna í landinu að taka við auknum verkefnum. Ég veit ekki hvar hv. þingmaður hefur kynnt sér málin en núna er biðtíminn eftir að komast til læknis í heilsugæslunni á höfuðborgarsvæðinu nokkrir dagar. Það er alveg sama hvaða verkefni við aukum. Ef biðtíminn er núna nokkrir dagar mun hann ekki styttast með auknum verkefnum, það segir sig sjálft.

Ég held að engin ástæða sé til að leggja málin upp þannig að einhver í Sjálfstæðisflokknum hafi verið að halda því fram að óbeinar reykingar væru ekki hættulegar. Ég hef ekki heyrt það.

Virðulegi forseti. Ég velti því upp af ástæðu að apótekin, hvort sem okkur líkar betur eða verr, eru bara 63. ÁTVR-búðirnar eru 46. Þetta eru staðreyndir sem liggja fyrir og við breytum því væntanlega ekki, ég held að ekki sé vilji til að fjölga þeim.

Ég held að við ættum að sameinast um að reyna að koma góðum málum hér fram þegar snýr að forvarnamálum. Ég held ekki að lausnin á málum á því sviði sé að vera með boð og bönn. Eins og hv. þingmaður þekkir mjög vel höfum við með jákvæðum og uppbyggilegum forvörnum náð mjög miklum árangri. Við ættum að geta náð með aukinni áherslu á forvarnir því markmiði að hreinsa tóbak og vímuefni úr grunnskólum og framhaldsskólum. Það felur að vísu í sér að við eigum að ganga harðar fram í því að sjá til þess að ekki sé neytt þeirra efna í þeim skólum, hvort sem það eru grunnskólar eða framhaldsskólar, og við eigum ekkert að hika neitt við það að ganga hart fram í því.

Ef menn vilja hins vegar, sem ég býst nú við að hv. þingmaður hafi áhuga á, ræða þær hugmyndir þá verða menn auðvitað að ræða þær út frá staðreyndum. Staðreyndin er sú að útsölustaðirnir eru þetta margir, það mun auðvitað hafa ákveðinn galla í för með sér. Það hefur líka galla í för með sér að ef við búum áfram við þá stöðu að fáir aðilar sjái um söluna þá erum við hreint og klárt að færa gríðarlega mikil viðskipti til þeirra. Ef þetta færi í gegn værum við að færa til tveggja aðila gríðarlega mikil viðskipti. Við getum ekki horft fram hjá því. Það er einn sá þáttur sem menn þurfa að líta til. Er það vilji hv. þingmanna að koma viðskiptum til tveggja apótekarahringja sem Samkeppniseftirlitið hefur m.a. gert athugasemdir við að séu samkeppnisráðandi? Ég hélt að það væri sátt um að reyna að auka samkeppni á því sviði.

Virðulegi forseti. Ég held að afskaplega mikilvægt sé í þessum málum að ef einhver kemur og reynir að ræða þetta með þeim hætti út frá staðreyndum, bendir á staðreyndir, að menn fari ekki í þær skotgrafir og segja: Heyrðu, viðkomandi hlýtur að vera á móti því að forvarnir séu gegn reykingum og forvarnir séu yfir höfuð.

Mér fannst hv. þingmaður detta í þann pytt áðan. Ég vonast til að við getum tekið þessa umræðu á málefnalegan hátt. Ég held að það sé grundvöllurinn til að ná árangri.

Hvað varðar stefnu okkar sjálfstæðismanna hvet ég menn til þess að kynna sér heilsustefnuna sem var kynnt í nóvember 2008, þ.e. fyrsti hlutinn, en núverandi ríkisstjórn hefur ekkert gert með.