140. löggjafarþing — 12. fundur,  19. okt. 2011.

aðgerðaáætlun um tóbaksvarnir.

20. mál
[16:16]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Mér þykir miður, vegna þess að ég ætlaði að koma hingað upp í jákvæða uppbyggilega umræðu um þessa tillögu, að hv. þingmaður skuli vísa í einhverja ályktun sem ég þekki ekki og lætur að því liggja að ég hafi efasemdir um skaðsemi óbeinna reykinga og annað slíkt og hafi talað fyrir því að ekki eigi að vera nein boð og bönn. Ég sagði að vísu að í heilsustefnu, og fór sérstaklega yfir það þegar við vorum að tala um skólana, væri mjög mikilvægt að við gengjum harðar fram til að sjá til þess að ekki yrði neytt tóbaks sama hvort það væru sígarettur eða annað slíkt.

Hins vegar geta menn ekki komist hjá þeirri staðreynd að ekki verða meiri verkefni sett á heilsugæsluna. Það er ekki hægt að tala eins og það sé ekkert mál. Við vitum að við horfum upp á mikið vandamál á næstu árum í sambandi við t.d. hvernig eigi að manna stöður í hinum dreifðu byggðum. Hv. þingmaður þekkir þetta mjög vel. Apótekin eru bara ákveðið mörg hvort sem okkur líkar betur eða verr, nema við náum einhverjum stórkostlegum breytingum í neyslu sem mundi þá auðvitað þýða vandræði.

Ég lít ekki á það sem eitthvert smámál að tveir hringir stýri lyfjaverslun í landinu. Ég fór í aðgerðir til að reyna að auka samkeppni á því sviði. Ég hef ekki skoðað tölur um það nýlega en lyfjakostnaður hefur lækkað mjög mikið og lágvöruverslunum með lyf hefur fjölgað mikið. Ég vonast til þess að samkeppni hafi aukist en hef ekki litið á það neitt sérstaklega. Við verðum, virðulegi forseti, alveg sama á hvaða sviðum það er að passa að við göngum ekki þannig fram að við séum að ýta undir hringamyndun og sjá til þess að fáir aðilar stýri verslun, alveg sama hvaða verslun það er.