140. löggjafarþing — 12. fundur,  19. okt. 2011.

reglur um skilaskyldu á ferskum matvörum.

34. mál
[16:39]
Horfa

Flm. (Einar K. Guðfinnsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir tillögu til þingsályktunar um reglur um skilaskyldu á ferskum matvörum. Þetta er gamall kunningi okkar og hefur verið flutt nokkrum sinnum áður. Á síðasta þingi, 139. löggjafarþingi, var málið afgreitt frá þáverandi hv. viðskiptanefnd og raunar eftir að hafa fengið umsögn frá þáverandi sjávarútvegs- og landbúnaðarnefnd. Málið var afgreitt samhljóða frá báðum nefndum þar sem hvatt var til þess að þessi tillaga yrði samþykkt óbreytt.

Þetta lýtur að hinni svokölluðu skilaskyldu á ferskum matvörum sem felur í sér að kjósi verslunareigandi svo getur hann sér að kostnaðarlausu krafist þess að framleiðandi taki til baka framleiðsluvörur sem eru að nálgast síðasta söludag. Þetta á við um íslenskar matvörur en ekki þær erlendu. Þetta hafa margir talið að þýddi það að það væri ójöfn samkeppnisaðstaða íslenskra matvara gagnvart þeim erlendu. Aðrir hafa talað um að í skilaskyldu fælist trygging fyrir því að ekki verði óeðlileg birgðasöfnun í verslun með tilheyrandi kostnaði og rýrnun sem kynni að falla á neytendur. Þess vegna er lagt til að hæstv. efnahags- og viðskiptaráðherra verði falið að móta reglur um skilaskylduna til að taka á þessu máli og koma því þar með í viðunandi horf.