140. löggjafarþing — 12. fundur,  19. okt. 2011.

reglubundnar árlegar heimsóknir til eldri borgara í forvarnaskyni.

21. mál
[16:41]
Horfa

Flm. (Siv Friðleifsdóttir) (F):

Virðulegur forseti. Ég mæli fyrir tillögu til þingsályktunar um reglubundnar árlegar heimsóknir til eldri borgara í forvarnaskyni. Að þessu máli standa fulltrúar allra flokka og ég ætla að lesa upp, virðulegi forseti, hvaða þingmenn það eru. Sú er hér sendur er 1. flutningsmaður. Aðrir þingmenn eru Sigríður Ingibjörg Ingadóttir, Þór Saari, Þráinn Bertelsson, Guðlaugur Þór Þórðarson og Þuríður Backman. Tillögugreinin hljóðar svo, með leyfi virðulegs forseta:

„Alþingi ályktar að fela heilbrigðisráðherra og félags- og tryggingamálaráðherra í samvinnu við Samband íslenskra sveitarfélaga að koma á reglulegum árlegum heimsóknum í forvarnaskyni sem bjóðist öllum sem eru 75 ára og eldri til að hægt verði að veita þeim þjónustu strax og þurfa þykir svo að þeir geti búið sem lengst heima.“ — Ég vil skjóta því að að hér á samkvæmt nýrri skipan að standa velferðarráðherra í stað þeirra tveggja ráðherra sem hér eru taldir upp.

Þetta mál er upphaflega komið á borð þingmanna í gegnum norrænt samstarf. Það var flutt á 138. þingi og á 139. þingi þannig að verið er að endurflytja það í þriðja sinn. Velferðarnefnd Norðurlandaráðs var með ákveðið þema árið 2010 um lífsgæði eldri borgara á Norðurlöndum. Þá skoðaði nefndin sérstaklega þá þjónustu sem boðið er upp á fyrir eldri borgara á Norðurlöndunum. Í þessari velferðarnefnd Norðurlandaráðs er sú sem hér stendur og þá var líka í henni hv. þm. Sigríður Ingibjörg Ingadóttir og við vorum í því að kynna okkur þessi mál. Við sáum hvað Danir voru að gera og má segja að við höfum tekið þá hugmyndafræði inn í þetta mál, það sem Danir eru að gera.

Í Danmörku hafa þeir komið sér upp alveg sérstöku forvarnakerfi í þessu sambandi sem felst í því að öllum íbúum sem eru 75 ára og eldri er boðin heimsókn einu sinni til tvisvar á ári af öldrunarþjónustufulltrúa og öllum sveitarfélögum ber að bjóða upp á slíkar heimsóknir. Í öllum heimsóknum til hins aldraða er farið yfir alla þætti sem varða heilsu og aðstæður hans og metið hvort viðkomandi þurfi á einhverri aðstoð að halda eða ekki. Aðstoðin getur falist í tímabundinni aðstoð við þrif, innkaup, þjálfun eða annað slíkt. Til dæmis hefur sveitarfélagið Kaupmannahöfn lagt áherslu á að hjálpa fólki til sjálfshjálpar og því er gjarnan gripið inn í með þjálfun til að viðkomandi einstaklingur geti sjálfur séð um þrif, innkaup og þess háttar. Ef slík úrræði duga ekki fær fólk langvarandi aðstoð af sama tagi og eftir atvikum heimahjúkrun. Með því að gera þetta svona skipulega, fara heim til fólks og skoða aðstæður heima hjá hinum aldraða, hafa Danir tryggt að fleiri eldri borgarar geta búið heima hjá sér en áður og þeir hafa þannig fyrirbyggt ótímabærar innlagnir á stofnanir. Það er gríðarlega hagkvæmt að leggja fólk ekki of snemma inn, til dæmis á hjúkrunarheimili. Það eru dýr pláss og það er ekki gott fyrir skattborgarana að greiða slíkar ótímabærar innlagnir og hvað þá fyrir hinn aldraða að fara of snemma inn og vera tekinn of snemma úr nærumhverfi sínu. Það væri nær að hjálpa sem flestum heima. Þetta mál gengur út á það að hjálpa hinum aldraða að vera heima sem lengst með því að setja upp alveg skipulagt kerfi til að halda utan um það.

Í greinargerð sem fylgir þessu máli eru líka mjög athyglisverðar tölur varðandi það hvað við vistum marga í hjúkrunarrýmum utan sjúkrahúsa. Ég ætla aðeins að grípa inn í það.

Samkvæmt samanburðartölum OECD, þar sem skoðað er hve hátt hlutfall þeirra sem eru 65 ára og eldri vistast í hjúkrunarrýmum (utan sjúkrahúsa) árið 2007, kemur í ljós að á Íslandi vistast 6% eldri borgara (65+) í hjúkrunarrýmum, 5,5% í Noregi, 4,6% í Finnlandi og 4,5% í Danmörku. Í Svíþjóð er hlutfallið hærra eða 6,8% árið 2006, en ekki kom fram hlutfallið árið 2007.

Við erum í efri kantinum, við erum næsthæsta landið, þ.e. 6% okkar eldri borgara vistast á hjúkrunarrýmum árið 2007. Samkvæmt skýrslu OECD, um heilbrigðismál á Íslandi árið 2008, erum við Íslendingar með hlutfallslega mörg hjúkrunarrými (langtímarými) fyrir aldraða, 65 ára og eldri, en jafnframt kom fram að framboð rýma á ákveðnum landsvæðum er ekki í samræmi við þörf. Þannig er líklega offramboð rýma á ákveðnum svæðum en skortur á öðrum. Í skýrslunni segir að þessi staðreynd komi á óvart í ljósi þess hve íslenska þjóðin er ung en hugsanlega megi rekja hátt hlutfall hjúkrunarrýma á Íslandi til þess að framboð heimaþjónustu sé ekki nægilegt og að það vanti millilausnir, svo sem íbúðir fyrir aldraða í nálægð hjúkrunarheimila.

Þetta er mál sem er mjög mikilvægt að stjórnvöld skoði og reyndar hafa stjórnvöld verið að reyna að gera sitt besta í því að gera skipulagsbreytingar varðandi vistun aldraðra á hjúkrunarheimilum. Í heildina má segja að því miður höfum við vistað aldraða of snemma, tekið þá of hratt inn á hjúkrunarheimilið og þetta þykir mjög mörgum skrýtið að heyra af því að það hafa verið biðlistar. Biðlistarnir hafa að mörgu leyti verið falskir, þeir breyttust eftir að við tókum upp nýtt vistunarmat, þá hríðfækkaði á þeim af því að á biðlista var fólk sem átti ekkert erindi á hjúkrunarheimili eftir gamla kerfinu. Nú er miklu faglegra vistunarmat í gangi þannig að listarnir eru eðlilegri. Það eru þó einhverjir biðlistar þrátt fyrir að við séum með hátt hlutfall hjúkrunarrýma miðað við hin löndin, fyrir utan Svíþjóð. Það er vegna þess, að mati flestra sem hafa skoðað þessi mál, að við erum með of litla þjónustu heima. Það geta fleiri verið heima lengur ef þjónustan er meira veitt heim. Þar þurfa sveitarfélögin líka að koma svolítið vel inn því að þau veita hina félagslegu heimaþjónustu.

Þetta mál, virðulegi forseti, gengur svolítið út á það að setja nákvæmari reglur í kringum þjónustu sveitarfélaga og vera með meira samstarf um fyrirbyggjandi heimsóknir þannig að hinn aldraði geti verið lengur heima og þurfi ekki að fara of snemma inn á hjúkrunarheimili. Ég hef reyndar ekki skoðað nýjustu tölur en á sínum tíma blasti við að meðaltími þeirra sem vistuðust á hjúkrunarheimilum — ég held það séu tvö ár síðan — var yfir þrjú ár sem var talsvert lengri tími en meðalvistunartími á hinum Norðurlöndunum. Okkar fólk lá því hlutfallslega lengur á hjúkrunarheimilum. Það þýðir að þeir fóru hlutfallslega of snemma inn. Þarna þarf að skoða vel hver þróunin er, hvort við erum að nálgast meðalvistunartíma hinna öldruðu á hjúkrunarheimilum, hvort við erum að nálgast Norðurlöndin í því sambandi og líka hvort við höfum verið að bæta okkur í að veita félagslega heimaþjónustu frá sveitarfélögum til aldraðra og líka heilbrigðisþjónustu frá heilsugæslustöðvunum til aldraðra sem ríkið heldur utan um.

Virðulegi forseti. Þetta mál gengur sem sagt út á það að velferðarráðherra fari í samvinnu við Samband íslenskra sveitarfélaga til að koma á reglubundnum heimsóknum til aldraðra með það að markmiði að sem flestir verði sem lengst heima og haldi þannig lífsgæðum sem lengst.