140. löggjafarþing — 12. fundur,  19. okt. 2011.

reglubundnar árlegar heimsóknir til eldri borgara í forvarnaskyni.

21. mál
[17:02]
Horfa

Flm. (Siv Friðleifsdóttir) (F):

Virðulegi forseti. Ég ætla að loka umræðunni með því að þakka fyrir þann stuðning sem fram hefur komið og bregðast aðeins við umræðunni. Mér finnst ábendingarnar góðar sem fram hafa komið.

Varðandi aldurinn 75 ára og eldri og hvort hann sé of lágur, það má vera, en þarna miðuðum við við danska módelið. Það má vel vera að aldurinn eigi að vera hærri en hugmyndafræðin er ekki einungis að heimsækja þá sem eiga við einhvern vanda að stríða, eru á mörkunum eða slíkt, heldur líka þá sem eru í engum vanda. Þetta er hugsað sem fyrirbyggjandi verkefni. Mér líst bara frekar vel á það ef hægt er að prufukeyra svona verkefni, t.d. hjá Akureyrarbæ þar sem heilsugæslan og félagsþjónusta sveitarfélaga er samtvinnuð. Við bentum á samstarf við Samband íslenskra sveitarfélaga af því að sveitarfélögin eru með félagsþjónustu sem yfirleitt grípur fyrr inn í en heilsugæslan með hjúkrunarþjónustuna.

Ég vil ljúka þessari umræðu með því að þakka góðar ábendingar og nefndin mun væntanlega taka þær til umfjöllunar.