140. löggjafarþing — 13. fundur,  20. okt. 2011.

skuldaúrvinnsla lítilla og meðalstórra fyrirtækja.

[10:33]
Horfa

efnahags- og viðskiptaráðherra (Árni Páll Árnason) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrirspurnina. Ég get ekki tekið undir það að ekki hafi verið horft sérstaklega til vanda lítilla og meðalstórra fyrirtækja. Það hefur auðvitað verið forgangsverkefni okkar og var forsendan og ástæðan fyrir því að ráðist var í átakið um Beinu brautina til að auka áhersluna á að unnið yrði strax úr þeim vanda sem í grunninn er viðráðanlegur, þ.e. að koma litlum og meðalstórum fyrirtækjum í það horf að þau geti starfað áfram, haldið fólki í vinnu og bætt við sig fólki.

Markmiðin sem við settum með Beinu brautinni í upphafi voru metnaðarfull en þau hafa öll staðist, það voru sett tímanleg markmið, þ.e. um að tilboð yrðu send fyrir 1. júní sl. Það tókst nema hjá einum banka sem þurfti að taka sér tíma til 1. júlí. Nokkrir bankar hafa átt við að stríða eigandavanda að því leyti að þeir hafa ekki búið við fullkomna eiginfjármögnun, eins og Byr og SpKef. Þar hafa safnast upp halar. Það er stefnt að því núna og bankarnir uppástanda það að þeir muni ljúka tillögugerð til allra fyrirtækja fyrir lok þessa árs. Úrvinnslan sem núna stendur yfir tekur auðvitað einhvern tíma þar sem fyrirtækin þurfa að svara tilboðunum og menn að semja sig að niðurstöðu. Á sama tíma erum við að auka mjög þrýsting á fjármálafyrirtækin, annars vegar með hækkandi eiginfjárbindingarkröfum vegna vanskilalána og hins vegar fylgist Samkeppniseftirlitið mjög grannt með því með hvaða hætti fyrirtækjum er skilað út úr þessari skuldaúrvinnslu og þess mjög gætt að þau séu ekki ofskuldsett. Ég held að það sé sótt að fjármálafyrirtækjunum úr öllum áttum sem fagna góðum (Forseti hringir.) liðsmönnum í þeirri baráttu að flýta þessu ferli og ég held að það sé í sjálfu sér enginn efniságreiningur um að við viljum ljúka því sem allra fyrst.