140. löggjafarþing — 13. fundur,  20. okt. 2011.

skuldaúrvinnsla lítilla og meðalstórra fyrirtækja.

[10:35]
Horfa

Ólöf Nordal (S):

Virðulegi forseti Það kemur mér reyndar nokkuð á óvart að hæstv. efnahags- og viðskiptaráðherra sé eins ánægður með þá úrvinnslu sem Beina brautin á að hafa leitt fram og hann lýsti. Auðvitað er það rétt hjá hæstv. efnahags- og viðskiptaráðherra að Beina brautin var sérstaklega sett á til að leysa úr þessum vanda, en það er ekki að sjá að þau áform hafi gengið eftir með þeim hætti sem að var stefnt. Bæði eru mikil áhöld um það hversu stór hluti þeirra fyrirtækja sem áttu upphaflega að fara í Beinu brautina hefur verið þar og það eru fleiri þættir í því sem hæstv. ráðherra þekkir.

Vegna orða hæstv. efnahags- og viðskiptaráðherra um samkeppnismál langar mig líka að beina til hæstv. efnahags- og viðskiptaráðherra þeirri spurningu hvort hann telji ekki að líta þurfi sérstaklega til eignarhaldssamsetningar í atvinnulífinu um þessar mundir, nú þegar við sjáum að til dæmis Framtakssjóðurinn er að eignast verulegan hluta í atvinnulífinu. Það er mjög mikilvægt að meginþorri atvinnulífsins sé sem mest á almennum markaði og að lítil og meðalstór fyrirtæki séu í eigu (Forseti hringir.) fólksins í landinu. Mig langar að spyrja hæstv. viðskiptaráðherra hvort hann telji ekki að það þurfi að líta sérstaklega til þessa eignarhalds og þróunar þess núna þegar við erum að ná okkur upp úr þessum erfiðleikum.