140. löggjafarþing — 13. fundur,  20. okt. 2011.

reglur um eignarhald í bönkum.

[10:42]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf):

Virðulegur forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svörin og bið hann að reifa aðeins þá annmarka sem gætu verið við því að setja formlega mörk á það hve stóran hlut í viðskiptabönkum menn mega eiga. Ég held að vísu að til að gera það sé mikilvægt að þingið taki alvarlega eitt af stærstu verkefnunum núna í vetur sem er að skilja á milli fjárfestingarbankastarfsemi og viðskiptabankastarfsemi. Sjónarmið um dreifða eignaraðild eiga auðvitað fyrst og fremst við um viðskiptabankaþáttinn.

Ég fagna því að við eigum von á skýrslu frá hæstv. efnahags- og viðskiptaráðherra í næsta mánuði um valkosti í þeim efnum og hlakka til að takast á við það. Gott væri að heyra frá hæstv. ráðherra ef annmarkar eru sérstaklega út frá Evrópuréttarsjónarmiðum á því að setja hámark við því hve stóra hluti menn mega eiga í viðskiptabönkum.