140. löggjafarþing — 13. fundur,  20. okt. 2011.

reglur um eignarhald í bönkum.

[10:43]
Horfa

efnahags- og viðskiptaráðherra (Árni Páll Árnason) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég sé ekki í fljótu bragði vandkvæði út frá Evrópurétti á því að setja einhverja efnisreglu um hámarkseignarhluti í bönkum. Ég held að þetta sé mál sem við þurfum að ræða í samhengi við annað og eins og hv. þingmaður bendir réttilega á er von á skýrslu inn í þingið í næsta mánuði þar sem hugsunin er að ræða grunnforsendur fjármálamarkaðarins og hvernig hann eigi að starfa.

Hvað þurfum við? Hvernig verjum við innstæðurnar í ljósi fenginnar reynslu? Hvernig högum við umgjörðinni utan um það? Hvernig tryggjum við annars vegar trúverðugt innstæðutryggingakerfi sem er algjör nauðsyn fyrir samkeppnishæft bankakerfi en komum líka í veg fyrir að það skapi opna áhættu fyrir almenning í landinu? Við þurfum þá að búa til umgjörð sem gerir okkur það kleift í framhaldinu og spurningin um aðskilnað fjárfestingarbankastarfsemi og viðskiptabankastarfsemi er hluti af því sem menn þurfa að ræða í þessu samhengi. Þar eru margar leiðir til, og til dæmis í nýlegri breskri skýrslu er (Forseti hringir.) fjallað um ýmsa ólíka kosti til að ná því. Það er gott að þingið fari einfaldlega yfir það í opinni umræðu.