140. löggjafarþing — 13. fundur,  20. okt. 2011.

lánsveð og 110%-leiðin.

[10:45]
Horfa

Lilja Mósesdóttir (U):

Virðulegi forseti. Það er orðið ljóst að skuldaúrræði ríkisstjórnarinnar auka skuldabyrði fólks, taka allt of langan tíma og fela í sér handahófskennt óréttlæti. Ný skýrsla eftirlitsnefndarinnar um skuldaúrvinnslu lánastofnana er áfellisdómur yfir 110%-leiðinni og ráðaleysinu sem ríkir um lánsveð. Heimili þurfa að uppfylla allt of þröng skilyrði ef þau vilja fara í 110%-leiðina og það hefur orðið til þess að margar lánastofnanir, sérstaklega bankarnir, hafa gefist upp á að fara eftir leiðbeiningum Alþingis og ríkisstjórnarinnar um það hvaða eignir eigi að draga frá áður en til niðurfærslu kemur. Ekki nóg með það, heldur hafa bankarnir tekið upp mishá fríeignarmörk þannig að það fer eftir því hvar fólk tók lánið hversu mikla niðurfærslu það fær samkvæmt 110%-leiðinni. Ef maður ber saman Íbúðalánasjóð sem við á þingi höfum lagt línurnar fyrir um hvernig eigi að færa niður að 110% og Landsbankann fær fólk sem tók lán hjá Íbúðalánasjóði minni niðurfærslu en hjá Landsbankanum.

Ég spyr því hæstv. efnahags- og viðskiptaráðherra hvernig hann ætli að bregðast við vanda þeirra sem eru með lánsveð hjá foreldrum sínum og bankarnir eru nú að ganga að og þessari gagnrýni eftirlitsnefndarinnar um að 110%-leiðin feli í sér handahófskennt óréttlæti.