140. löggjafarþing — 13. fundur,  20. okt. 2011.

lánsveð og 110%-leiðin.

[10:49]
Horfa

Lilja Mósesdóttir (U):

Frú forseti. Það eru vissulega vonbrigði að hæstv. efnahags- og viðskiptaráðherra vilji ekki leita leiða til að jafna aðstöðu fólks eftir því hvar það tók lán. Það var sami forsendubresturinn. Allir sem tóku verðtryggð lán hafa séð þau hækka um 40% frá því í janúar 2008. Það er ástæða þess að það er nauðsynlegt að fara í almenna leiðréttingu. Allir urðu fyrir sama forsendubrestinum.

Auk þess get ég ekki séð að 110%-leiðin sanni galla lyklafrumvarpsins, þvert á móti vegna þess að nú þurfum við ekki að hafa áhyggjur af eignarrétti kröfuhafa þegar bankarnir eru búnir að sýna fram á að þeir ganga ekki að aðfararhæfum eignum á bilinu 7–10 milljónir. Fólk sem á sumarbústað undir 7 milljónum hjá Íslandsbanka eða undir 10 milljónum hjá Landsbanka getur fengið (Forseti hringir.) niðurfelldar skuldir. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)