140. löggjafarþing — 13. fundur,  20. okt. 2011.

St. Jósefsspítali.

[10:56]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (S):

Frú forseti. Það kemur í ljós í þessu máli sem öðrum sem koma frá ríkisstjórninni að þau meina ekkert sem þau segja. Við erum að upplifa í þessari viku varðandi atvinnuuppbyggingu fyrir norðaustan að menn þora ekki að segja hlutina eins og þeir eru.

Það var aldrei nein alvara af hálfu ráðherra að byggja upp á St. Jósefsspítala. Af hverju var það þá ekki hreinlega sagt í umræðu fyrir ári? Af hverju horfast ráðherrarnir ekki í augu við fólkið og segja hlutina eins og þeir eru? Það er alveg rétt að í gegnum árin hafa menn verið með alls konar áform um St. Jósefsspítala og menn hlustuðu á mótmæli 14 þús. Hafnfirðinga fyrir rúmum þremur árum. Menn komu með tillögur til að byggja meðal annars upp miðstöð öldrunarþjónustu á St. Jósefsspítala. Því hefur öllu verið ýtt út af borðinu og ég spyr enn og aftur: Hvaða hlutverk sér hæstv. ráðherra að St. Jósefsspítali gegni í framtíðinni? Styður hann að það verði engin starfsemi á St. Jósefsspítala? Ég mótmæli því sérstaklega að menn hafi sýnt fram á einhverja hagkvæmni með þessari sameiningu. Hvar er varðveisla þekkingarinnar? (Forseti hringir.) Hvar er varðveisla rannsóknanna sem hafa átt sér stað og hvar er þjónustustigið sem hefur verið öflugt í Hafnarfirði sem og á öllu suðvesturhorninu í þessum efnum?