140. löggjafarþing — 13. fundur,  20. okt. 2011.

St. Jósefsspítali.

[10:57]
Horfa

velferðarráðherra (Guðbjartur Hannesson) (Sf):

Hæstv. forseti. Það er alveg makalaust að eiga að sitja undir kröfum um að aðlaga eftir hrun þegar tekjur ríkissjóðs falla um 10–15%, raunlækkun, (Gripið fram í: Sýndu þá fram á það.) og 15% í vöxtum. (Gripið fram í: Það er enginn …) Svo koma brennuvargarnir og biðja okkur (Forseti hringir.) um að skýra út —

(Forseti (ÁRJ): Forseti biður um hljóð.)

— þegar við erum að tala um að það þurfi að grípa inn í. Loksins verðum við að gera það og það er sannarlega ekki af fúsum eða sérstökum vilja. Við verðum bara að gjöra svo vel að laga útgjöld að tekjunum. Það að draga svo almenna ályktun að það hafi verið svik á öllum sviðum er dæmigerður málflutningur sem maður vill helst losna við af Alþingi.

Ég játa að við gátum ekki staðið við þetta loforð. Að það hafi alltaf verið ásetningur að loka St. Jósefsspítala með þeim hætti sem nú er verið að gera er ekki rétt. Við skulum hafa það rétt. Það er búið að ræða við fulltrúa frá Hafnarfjarðarbæ um það með hvaða hætti við nýtum húsið, hvaða þjónusta geti komið þangað. Það er búið að ræða það hvort við getum farið inn í öldrunarþjónustuna, hvort við getum eflt heilsugæsluna, (Forseti hringir.) og þeirri umræðu munum við að sjálfsögðu halda áfram með það að markmiði að halda öruggri og góðri þjónustu (Gripið fram í.) með sem hagkvæmustum hætti (Gripið fram í.) og ég hefði gaman af því að heyra Sjálfstæðisflokkinn segja að við ættum ekki að reka þetta á hagkvæman hátt. (Gripið fram í: Samfylkingin …)