140. löggjafarþing — 13. fundur,  20. okt. 2011.

fjárhagsleg endurskipulagning í rekstri bænda.

[11:03]
Horfa

Sigurgeir Sindri Sigurgeirsson (F):

Frú forseti. Ég vil þakka kærlega fyrir þetta svar. Það vakti ekki athygli mína við lestur skýrslunnar að þar væri mikið talað um tekjuflæði ríkisstuðnings en hins vegar er á heimasíðu efnahags- og viðskiptaráðuneytisins úrdráttur þar sem talið er að þetta sé aðalatriði skýrslunnar en það sér maður ekki við lestur hennar.

Ég vil hins vegar benda hæstv. ráðherra á að í landbúnaðarráðuneytinu hefur starfað úrskurðarnefnd til að taka á mati á jörðum. Hún hefur metið virði bújarða og annarra eigna sem nýttar eru til búrekstrar. Nefndin hefur stafað af vandvirkni og verið óumdeild og það er tilvalin leið að nota þetta form. Slík nefnd getur sjálfsagt ekki unnið þessa fjárhagslegu endurskipulagningu eða mat á því þar sem hún hefur annað hlutverk samkvæmt lögum en fyrirmyndin er þar og það væri hægt að skipa slíka nefnd með hagsmunaaðilum til að taka á þessu kerfislæga ofmati á virði jarða.