140. löggjafarþing — 13. fundur,  20. okt. 2011.

fjárhagsleg endurskipulagning í rekstri bænda.

[11:04]
Horfa

efnahags- og viðskiptaráðherra (Árni Páll Árnason) (Sf):

Virðulegi forseti. Þessi niðurstaða er auðvitað einn af þeim þáttum sem þarf að ræða við lánastofnanir í kjölfar niðurstöðu þessarar skýrslu og freista þess að finna praktískar leiðir. Frá upphafi skuldaúrvinnslunnar hefur verið nokkuð flókið að koma bændum fyrir í kerfinu. Lausnin hefur verið sú að við höfum komið þeim alls staðar fyrir, þeir eiga líka rétt á greiðsluaðlögun sem venjulega býðst bara einstaklingum. Það eru því nokkrar leiðir fyrir bændur til að komast með skuldamál sín í höfn.

Það er alveg sama hvaða leið er valin, ef bújarðir eru ekki rétt verðmetnar og eitthvað er á huldu um afrakstursgetu rekstrarins þá lenda menn auðvitað í miklum ógöngum. Það skiptir miklu máli að greiða úr því og fá um það eðlilega sýn af hálfu fjármálafyrirtækjanna hvað þessi bú geta staðið undir í skuldsetningu.