140. löggjafarþing — 13. fundur,  20. okt. 2011.

Niðurskurður í heilbrigðis- og velferðarmálum.

[11:06]
Horfa

Ásmundur Einar Daðason (F):

Frú forseti. Íslandi er stýrt af ríkisstjórn sem kennir sig við velferð. Í skýrslu Ríkisendurskoðunar um mannauðsmál sem nýverið kom út kemur fram að starfsmönnum sem heyra undir svið velferðarráðherra hafi fækkað um 1.100 á árunum 2009–2011. Fækkun ríkisstarfsmanna í heild nemur þó einungis 800 samkvæmt sömu skýrslu. Þetta þýðir að fjölgun hefur orðið á öðrum sviðum á kostnað velferðarmála eða um 300–400 starfsmenn.

Eftir niðurskurð undangenginna ára segir síðan hæstv. fjármálaráðherra fyrir hönd ríkisstjórnarinnar, með leyfi frú forseta:

„Við erum að reyna að fara mildilega í þetta, við erum bara að tala um 1,5% í samdrætti í heilbrigðisþjónustunni þetta árið.“

1,5% eru samt 630 milljónir á Landspítalanum og þar við bætist að mun harðari niðurskurður er áætlaður hjá mörgum heilbrigðisstofnunum úti á landi, allt að 8–9% ofan á niðurskurð fyrri ára. Læknar eru hættir að sækja um auglýstar stöður og enginn kemur heim úr námi að loknu læknanámi erlendis. Starfsfólk, sjúklingar, aldraðir og fleiri hafa mjög miklar áhyggjur og öryggi fólks víða um land er í stórri hættu.

Þegar núverandi hæstv. velferðarráðherra tók við embætti gagnrýndi hann niðurskurð sem þá var boðaður einhliða með birtingu fjárlagafrumvarps. Nú ári síðar er ráðherrann orðinn harðastur allra og boðar fraktflutninga á sjúklingum og öldruðum landshorna á milli. En á sama tíma fer ráðherrann huldu höfði, svo huldu að flokksbróðir hans og einn af heiðursfélögum við stofnun Samfylkingarinnar, Sighvatur Björgvinsson, sem einnig var heilbrigðisráðherra, sá ástæðu til að gera athugasemdir við það í Kastljósviðtali nýverið. Þar sagði hann, með leyfi frú forseta:

„Það er ráðherrann sem velur þær aðferðir sem ofarlega verða og ég hafði þann háttinn á að beita mér sjálfur. Ég skaut aldrei ráðuneytisstjóra eða forstjóra Landspítalans eða einhverjum slíkum í veg fyrir mig.“

Það er nefnilega svo að ráðherrann á síðasta orðið en ekki embættismennirnir. Þetta er enn ein aðför ríkisstjórnarinnar að öryggi íbúa víða um land. Hvað segir ráðherrann við þessu?

Ég get sagt það, frú forseti, að Framsóknarflokkurinn mun aldrei líða að velferðarþjónustu landsins sé rústað með þessum hætti og að starfsfólki sé fjölgað á öðrum sviðum þjóðfélagsins á kostnað velferðarinnar.

Ríkisstjórnin talar gjarnan um að það þurfi kjark til að skera niður í heilbrigðiskerfinu, það þurfi kjark til þess að segja upp 1.100 manns í velferðarmálum og fjölga fólki á öðrum sviðum samfélagsins. Þetta lýsir best þeirri brengluðu hugsun sem ríkir í kolli þeirra sem stýra þessu landi. Það þarf kjark til að standa með þeim sem minna mega sín. Það þarf kjark til að standa með sjúkum og öldruðum. Það þarf nefnilega kjark til að fækka kokteilboðunum, flugferðunum og utanlandsferðunum og óþarfabruðlinu. (Gripið fram í.)

Við getum tekið nokkur dæmi, frú forseti. Hér er gripið fram í. 28 millj. kr. hækkun á sendiráð vegna fleiri starfsmanna í Brussel. Það fara 500 milljónir í Þýðingamiðstöð utanríkisráðuneytisins og þar hefur ekki verið skorið niður af sömu hörku og skorið er niður í heilbrigðisþjónustu á landsbyggðinni. (Gripið fram í.)

Flugferðir og kostnaður við ferðalög erlendis. Frú forseti. Ég er sannfærður um að landsmenn margir hverjir munu reka upp stór augu þegar niðurstöður fyrirspurnar sem ég var að leggja hér fram berast um fjölda flugferða ríkisstarfsmanna erlendis fyrstu níu mánuði ársins því að mig grunar að þar hafi ekki verið skorið niður af sömu hörku og gert hefur verið í velferðarmálunum. (Gripið fram í: En landbúnaðarkerfið?)

Frú forseti. Telur hæstv. velferðarráðherra og hin norræna velferðarstjórn að þetta sé rétt forgangsröðun við núverandi aðstæður? Ég get sagt það, frú forseti, að Framsóknarflokkurinn mun leggja til við afgreiðslu fjárlaga tillögur sem fela það í sér að lúxus- og gæluverkefni verði lögð til hliðar og velferðin verði varin.

Nú langar mig að spyrja hæstv. velferðarráðherra: Hefur ríkisstjórnin kjark til að verja velferðina og skera niður lúxus og bruðl á öðrum sviðum? (Gripið fram í: Heyr, heyr!)