140. löggjafarþing — 13. fundur,  20. okt. 2011.

Niðurskurður í heilbrigðis- og velferðarmálum.

[11:11]
Horfa

velferðarráðherra (Guðbjartur Hannesson) (Sf):

Hæstv. forseti. Ég vil þakka fyrir umræðuna um heilbrigðismálin og velferðarmálin, þetta er ágætistækifæri til þess að ræða þann málaflokk. Ég ætla samt að segja það í byrjun og vera pínkulítið kvikindislegur að þetta er í fyrsta skipti sem Ásmundur Einar Daðason ræðir þessi mál við mig þó að hann hafi setið með mér í fjárlaganefnd og við höfum verið í kjördæminu að verja hagsmuni spítala úti um allt land. (Gripið fram í: Þetta er rangt.) Ég sagði að þetta væri kvikindislegt vegna þess að það er nú einu sinni þannig að þessi umræða hefur ekki átt sér stað á þeim stöðum sem hún á að eiga sér stað líka, sem skiptir mjög miklu máli. (Gripið fram í.)

Mig langar líka til að segja það, því að hér finnst mér startað með ansi miklum sleggjudómum og fullyrðingum sem eiga ekki við nein rök að styðjast, að þegar menn eru að tala um að það hafi verið snert á öllum hlutum er það tilviljun að hv. þingmaður nefndi ekki landbúnaðarmálin?

Þegar verið er að ræða um fækkun á starfsmönnum tekst viðkomandi hv. þingmanni líka að gleyma því að heill málaflokkur færðist yfir til sveitarfélaga. Það er inni í þeirri tölu sem hv. þingmaður er að nefna. Er það fækkun í velferðarkerfinu?

Ég ætla að fara yfir það, ég sagði áðan að það hafi orðið 10–15% tekjufall eftir langvarandi stjórnartíð þar sem menn fóru í frjálshyggju og einkavæðingu og allt það. Við lentum í því að fjármagna Seðlabanka og halla á ríkisrekstri og borga 15% í vexti. Við höfum verið að borga stóraukið fé í atvinnuleysistryggingar og við þurfum að stilla saman tekjur og útgjöld. Þetta er umhverfið sem við erum að glíma við og það er verkefnið sem ég er að fást við.

Við sögðumst ætla að verja velferð, heilbrigðismál, menntamál og lífeyrismálin, þ.e. bótaþegana. Það hefur orðið stórhækkun á lægstu lífeyrisgreiðslum, úr 120 þús. kr. fyrir hrun yfir í 196 núna og stefnir í að fara yfir 200 þús. kr. Það á að taka það fram að þegar menn komu fram, ákveðnir verkalýðsleiðtogar, og sögðu að lægstu laun ættu að fara yfir 200 þús. þótti það algjör útópía. Það er búið að ná því marki í bótakerfinu.

Í öðru lagi hefur skatthlutfall, tekjur og kaupmáttaraukning hjá lægst launaða fólkinu hækkað frá hruni, sem er afrek miðað við það sem við höfum orðið að fara í gegnum. Það er verið að taka 2 þúsund nemendur inn í menntakerfið núna þessa mánuðina, sem er aukning, viðbætur bæði inn í háskóla og framhaldsskóla. Þessu er bara kastað út af borðinu hér í umræðunni.

Það er ekki ánægjulegt að standa í niðurskurði. Það er heldur ekki auðvelt en það er óhjákvæmilegt að hluta og það er okkar að vanda okkur eins og hægt er.

Það er ekki rétt sem hér er sagt og er einn af þeim frösum sem verið er að nota um flutning landshorna á milli. Það er ekkert í kerfinu sem bendir til að flutningar á milli landsvæða hafi aukist. (Gripið fram í.) Það hefur ekki verið sýnt fram á það. Við höfum verið að vinna með það og erum með stóra skýrslu sem fjallar um það og við erum að skoða. Það er til í einstaka greinum og á einstökum svæðum en það er almennt ekki mikil breyting.

Þegar talað er um að enginn komi heim úr námi þá er það auðvitað eðlilegt á meðan verið er að fækka stöðum í heilbrigðiskerfinu. En ég hef átt samræður við unglækna og þekki þá afar vel, marga hverja, þeir eru auðvitað á leiðinni heim um leið og þeir fá tækifæri til að koma heim, það er bara þannig.

Í þriðja lagi þegar talað er um að sá sem hér stendur fari huldu höfði þá kann það að virka þannig, en ég ætla ekki að taka upp aðferðir framsóknarmanna og sjálfstæðismanna við að handstýra hlutunum, deila þeim út, velja hvar eigi að gera hlutina. Ég ætla að reyna að láta fagmennina vinna það fyrir mig og með mér en auðvitað ber ég ábyrgðina á bak við það og mun ekki skirrast við að taka hana.

Varðandi heilbrigðiskerfið að öðru leyti er það þannig að heilbrigðiskerfið fær árið 2012 9,3% af vergri landsframleiðslu. Það er með því meira sem hefur verið. Ef við skoðum einstaka liði eins og t.d. hvað það er stór hluti af tekjum ríkisins, árið 2006 var það 9,13%, árið 2012 er reiknað með að það verði 9,65% af tekjum ríkisins. Ég skal viðurkenna það að aukningin hefur að sumu leyti orðið á vitlausum stöðum að mínu mati vegna þess að hún hefur orðið í sérgreinalækningum, hún hefur orðið í S-merktum lyfjum og að hluta til vegna gengisins í auknum kostnaði í aðgerðum erlendis, og þar hefði ég viljað setja meiri peninga inn á stofnanirnar. Það hef ég ekki notað mér til framdráttar að segja að í fjárlögum næsta árs sé aukning á framlögum til heilbrigðismála. Það er líka svo eftir fjáraukann á þessu ári. Ég hef ekkert verið að reyna að skreyta mig með því vegna þess að ég er ósáttur við hvar sú aukning er og er ósáttur við að þurfa að fara í niðurskurð á stofnunum á sama tíma.

Við skulum reyna að setja þar markalínur en við skulum ekki skirrast við að endurskoða það sem þarf að endurskoða þar sem við erum að viðurkenna þjónustubreytingu sem hefur orðið í allri Evrópu og ekki hvað síst á Norðurlöndunum, þ.e. styttri tími í innlagnir, meiri áherslu á heilsugæsluna, og að reyna að tryggja grunnþjónustuna. Það eru auknar kröfur um að stóru spítalarnir geti sinnt stóru verkefnunum, við þurfum að tryggja að það verði hægt. Það verður ekki hægt úti um allt land og hafa ekki verið nein áform um það. Gerðar eru öðruvísi kröfur í dag varðandi ýmsa þjónustu. Farið hefur verið þrisvar með fagfólk um allt land til að reyna að meta hvað er hægt að skera og hvað ekki án þess að það verði veruleg þjónustubreyting. (Forseti hringir.)

Umræðan er gríðarlega mikilvæg en í guðanna bænum höldum henni ekki á þessu fyrirsagnaplani og fullyrðingaplani sem leiðir okkur ekki neitt áfram.