140. löggjafarþing — 13. fundur,  20. okt. 2011.

Niðurskurður í heilbrigðis- og velferðarmálum.

[11:19]
Horfa

Álfheiður Ingadóttir (Vg):

Frú forseti. Bankakerfið hrundi, allir þrír bankarnir fóru á hausinn. Fjármálakerfið hrundi, efnahagsreikningur ríkisins fór á hvolf en heilbrigðisþjónustan hrundi ekki, hvorki á landsbyggðinni né á höfuðborgarsvæðinu. Henni hefur ekki verið rústað og það stendur ekki til. Þvert á móti hafa allar tölur sýnt að biðlistar hafa ekki lengst sem þýðir að aðgengi að þjónustunni hefur ekki versnað sem þýðir að árangur í heilbrigðisþjónustunni hefur heldur ekki versnað. Þetta eru góðu fréttirnar sem byggjast á því að ríkisstjórnin og meiri hluti Alþingis ákvað í þeim gríðarlega niðurskurði sem hér var nauðsynlegur í kjölfar hrunsins að verja heilbrigðisþjónustuna, lágmarka niðurskurðinn þar eins og í menntakerfinu, með góðum árangri leyfi ég mér að fullyrða. En það var auðvitað ekki gert bara á þessum bæ, heldur ekki síst vegna heilbrigðisstarfsmanna og framlags þeirra.

Það er vissulega erfitt að þurfa nú að fara enn eitt árið í niðurskurð. En huggun harmi gegn er að það er þó ekki nema 1,5% á milli ára. Það verður samt erfitt eins og Landspítalinn hefur bent á. Þar eru flestar hagræðingarleiðir uppurnar og aðeins niðurskurður í boði. Heilbrigðiskerfið hrundi ekki og það er ekki að hruni komið, en á næsta ári mun þó hrikta í, sérstaklega Landspítalanum, og ég árétta að það snertir alla landsmenn, jafnt Húsvíkinga sem íbúa í Seljahverfi, Sauðkrækinga jafnt og íbúa á Seltjarnarnesi.

Frú forseti. Það er mjög mikilvægt að endurskipuleggja heilbrigðisþjónustuna á Íslandi, ekki aðeins vegna niðurskurðarkröfunnar heldur til að bæta þjónustuna. Lykilatriðin í slíkri endurskipulagningu eru að koma á fót tilvísanakerfi, efla heimaþjónustu og taka hluta af sérgreinapottunum og færa yfir til heilbrigðisstofnana úti um land. Síðan þarf að samþætta félags- og heilsugæsluþjónustuna á forræði (Forseti hringir.) sveitarfélaganna.

Frú forseti. Þetta eru verkefnin sem fyrir liggja.