140. löggjafarþing — 13. fundur,  20. okt. 2011.

Niðurskurður í heilbrigðis- og velferðarmálum.

[11:21]
Horfa

Margrét Tryggvadóttir (Hr):

Forseti. Ég vil byrja á að þakka málshefjanda fyrir umræðuna og ráðherra fyrir að vera til svara. Mér finnst standa upp úr og það er sorglegt að við hugsum ekki nóg um það hve magurt heilbrigðiskerfið og velferðarkerfið er eftir allt góðærið sem var hérna. (Gripið fram í: Heyr, heyr.) Við máttum svo lítið skera niður, þá vorum við strax komin inn að beini og niðurskurðurinn farinn að bíta. Þess vegna er 1,5% mjög erfitt í niðurskurði þriðja, fjórða árið í röð. Á sama tíma hefur auðvitað þörfin aldrei verið meiri.

Ég vil gera að umræðuefni nauðsyn þess að það sé almennileg heilbrigðisþjónusta á landsbyggðinni og á sjúkrahúsunum þar í kring og það sé ekki allt fært til höfuðborgarinnar. Mér finnst það hreinlega forsenda búsetu á landsbyggðinni að fólk komist hratt og örugglega undir læknishendur við skyndileg veikindi eða slys og það sé sem mest og fjölbreytilegust þjónusta. Við þurfum að standa vörð um sjúkrahúsþjónustu á landsbyggðinni og við þurfum líka að taka inn í dæmið kostnað fólks við að sækja læknisþjónustu til Reykjavíkur. Það er meiri kostnaður við að gera þetta þannig að það fari sem mest til Landspítalans á heildina litið. Við erum sem sagt bara að færa kostnaðinn frá ríkinu yfir á almenning.

Hvað varðar fjármögnunina þurfum við einhvers staðar að fá peninga. Hér hrundi allt og við eigum ekki fyrir þessu. Ég vil nefna það að fara í endurskipulagningu á skuldum ríkissjóð. Það fara óheyrilegir fjármunir í vaxtakostnað og það væri til mikils að vinna að lækka hann.