140. löggjafarþing — 13. fundur,  20. okt. 2011.

Niðurskurður í heilbrigðis- og velferðarmálum.

[11:25]
Horfa

Guðmundur Steingrímsson (U):

Frú forseti. Ég vil segja strax í upphafi að mér finnst málið ekki snúast um það hvort þurfti að fara í niðurskurð í heilbrigðismálum eða ekki því að það er enginn vafi í mínum huga að það þurfti að fara í niðurskurðaraðgerðir, og jafnvel harkalegar, í velferðarmálum eftir hrun. Engu að síður velti ég fyrir mér hvað það þýðir þegar sagt var að það ætti að hlífa velferðarmálunum sérstaklega, það ætti að fara mildilega í niðurskurð í heilbrigðismálum.

Ég var að renna yfir ályktun læknaráðs frá 19. október, sem sagt nýlega ályktun, og þær tölur sem þar koma fram hafa náttúrlega komið fram annars staðar í umræðunni en þar er bent á að frá árinu 2008 er búið að skera niður rekstrarfé til Landspítala um 23% og búið að segja upp 600 manns. Enn á að skera niður þannig að sú spurning er orðin svolítið áleitin hvernig niðurskurðurinn til Landspítalans hefði litið út ef menn hefðu ekki ákveðið að fara mildilega í hann, ef menn hefðu ekki ákveðið að hlífa velferðarmálunum sérstaklega. Hvaða tölur hefðum við þá verið að horfa á? Mér finnst 23% niðurskurður í rekstrarfé á þessu árabili ekki sérlega sannfærandi vitnisburður um að menn hafi ákveðið að hlífa málaflokknum. Svo allrar sanngirni sé gætt hefur samt gengið ágætlega á Landspítalanum að skera niður. Nú segir Landspítalinn hins vegar að ekki verði lengra gengið og þá finnst mér spurning hvernig við ætlum að sýna í verki aðeins betur en við höfum gert að við ætlum að hlífa velferðarmálunum, hlífa heilbrigðismálunum sérstaklega. Ég held að við verðum að gera það með því að taka varnaðarorð forstjóra Landspítalans alvarlega og skera þá ekki meira niður núna en orðið er og leita allra leiða í þessum sal til að finna peninginn annars staðar. Hins vegar verðum við að fara að tala skýrt um það hvers konar heilbrigðiskerfi rís upp úr öskustónni. (Forseti hringir.) Við verðum að hafa framtíðarsýn og eftir henni kallaði forstjóri Landspítalans um daginn.