140. löggjafarþing — 13. fundur,  20. okt. 2011.

Niðurskurður í heilbrigðis- og velferðarmálum.

[11:35]
Horfa

Björn Valur Gíslason (Vg):

Virðulegi forseti. Þegar lagt var af stað í þá vegferð sem við erum á núna til að ná tökum á efnahagslífi þjóðarinnar vorið 2009 var algjörlega ljóst að ekki varð undan því komist að takast á við útgjöld til velferðarmála, heilbrigðismála, menntamála, lögreglunnar eða hvað sem það kallast.

Útgjöld til þeirra málaflokka á undanförnum árum fyrir hrun og eftir hrun hafa verið ríflega helmingur af útgjöldum ríkisins, með öðrum orðum hefði það engu breytt þó að við hefðum lagt allt annað niður og hætt öðrum rekstri í ríkinu, það hefði ekki dugað til að ná tökum á efnahagsmálunum. Halli ríkissjóðs vorið 2009 var á þriðja hundrað milljarða kr. sem er samsvarandi upphæð og við leggjum til velferðarmála í dag. Það var því ekki pólitísk stefna, það var ekki vilji, það var óumflýjanlegt verk. Það er alveg sama hvaða stjórnmálaflokkar hefðu komið að því verkefni, það hefði ekki verið undan því vikist að takast á við útgjöld til velferðarmála eins og alls annars í rekstri ríkisins.

Við getum hins vegar deilt um hvernig átti að gera það. Það er eðlileg deila, það er pólitík. Það eru skoðanaskipti sem eiga rétt á sér um hvernig við áttum að gera það. Því hefur verið haldið fram allt frá miðju sumri 2009 að verið væri að leggja heilbrigðiskerfið í rúst þegar núverandi stjórnvöld tóku fjárlög þess árs upp og reyndu að stilla þau upp á nýtt þegar stefndi í fullkomið óefni í ríkisfjármálunum. Því var haldið fram haustið 2009 þegar við unnum fjárlagafrumvarp fyrir árið 2010 að það fjárlagafrumvarp mundi rústa endanlega heilbrigðiskerfinu og velferðarkerfinu í landinu. Því var sömuleiðis haldið fram haustið 2010 að næðu þær tillögur og það fjárlagafrumvarp sem þá náði fram — sumir guggnuðu nú á endasprettinum og gengu til liðs við þá flokka sem leggja það í vana sinn að stinga höfðinu í steininn til að forðast veruleikann, (Forseti hringir.) en það hefur samt ekki gerst enn þá.

Ef hætta er á að eitthvað slíkt sé í farvatninu munum við auðvitað skoða þau mál eins og ævinlega.